fim 18.ágú 2022
Real Madrid opið fyrir því að selja Casemiro til Man Utd
Casemiro
Spænska félagið Real Madrid er opið fyrir því að selja brasilíska miðjumanninn Casemiro til Manchester United.

Það er óumdeilanlegt að Casemiro hefur verið með bestu varnarsinnuðu miðjumönnum heims síðasta áratuginn eða svo og myndað magnað tríó á miðsvæðinu með Toni Kroos og Luka Modric. Á þessum tíma hefur hann unnið Meistaradeildina fimm sinnum.

Hann er nú orðinn þrítugur og eru nú kostir Madrídinga ansi margir á miðsvæðinu. Félagið fékk Aurélien Tchouaméni frá Mónakó í sumar en árið áður kom Eduardo Camavinga frá Rennes.

Eins mikilvægur og hann hefur verið í gegnum árin er hann ekki talinn stórkostlega mikilvægur lengur og er félagið reiðubúið að hlusta á tilboð í hann en Manchester United hefur gríðarlega mikinn áhuga á að fá hann í glugganum.

Madrídingar telja það skynsamlegt að leyfa honum að fara og lækka launakostnaðinn en hvort Casemiro hafi áhuga á því að spila í Evrópudeildinni er annað mál. Hann myndi tvöfalda laun sín hjá United og fá hátt í 300 þúsund pund í vikulaun, en það hefur sárvantað varnarsinnaðan miðjumann í hópinn.

United þyrfti að greiða um 60 milljónir punda til að landa Casemiro í glugganum en ákvörðun liggur nú hjá honum.