fim 18.ágú 2022
Lengjudeildin: Markaveisla í Árbæ - Aziz skoraði þrennu í sigri á KV
Marciano Aziz skoraði þrennu fyrir Aftureldingu
Birkir Eyþórsson skoraði tvö fyrir Fylki
Mynd: Fótbolti.net - J.L.

Fylkir er komið á toppinn í Lengjudeild karla eftir að liðið vann Selfoss, 4-3, í kvöld. Afturelding lagði þá KV, 4-1, þar sem Marciano Aziz skoraði þrennu.

Emil Ásmundsson, sem hefur verið frábær með Fylkismönnum, skoraði strax á 4. mínútu leiksins. Heimamenn áttu aukaspyrnu sem Ásgeir Eyþórsson skallaði áfram á Emil og skaut hann boltanum í markvörð Selfyssinga sem fór þaðan í slá og inn.

Heimamenn bættu við tveimur mörkum til viðbótar undir lok fyrri hálfleiks. Birkir Eyþórsson gerði markið, sem lá í loftinu. Emil gerði síðan þriðja markið með því að vippa yfir Stefán Þór í markinu.

Selfyssingar komu til baka í þeim síðari. Gary Martin gerði fyrsta mark liðsins með góðu skoti upp í samskeytin og svo náði Valdimar Jóhannsson að gera annað markið á 60. mínútu.

Birkir Eyþórsson eyðilagði endurkomu gestanna með því að bæta við fjórða markinu þremur mínútum síðar. Undir lok leiks minnkaði Hrvoje Tokic muninn með marki úr vítaspyrnu eftir að Ásgeir Börkur Ásgeirsson braut á Gonzalo Zamorano.

Lengra komust Selfyssingar ekki. Fylkir er á toppnum með 39 stig en Selfoss með 25 stig í 6. sæti.

Aziz átti stórleik í Mosfellsbæ

Afturelding er í góðum gír. Liðið vann öruggan 4-1 sigur á KV á Malbikstöðinni að Varmá í kvöld.

Heimamenn komust yfir í gegnum Marciano Aziz á 36. mínútu. Það var Javier Robles sem átti skot í stöng, boltinn datt fyrir Aziz sem kom honum í markið.

Aziz gerði annað mark Aftureldingar eftir klukkutímaleik og að þessu sinni úr vítaspyrnu. Gunnar Helgi Steindórsson braut á Elmari Kára Enessyni Cogic. Aziz tvöfaldaði svo örugglega forystuna.

Fjórum mínútum síðar kom þriðja marki. Robles gerði það en hann átti skot af varnarmanni og í netið. Þegar tíu mínútur voru eftir minnkaði Askur Jóhannsson muninn eftir sendingu frá Valdimar Daða Sævarssyni.

Í uppbótartíma leiksins fullkomnaði Aziz þrennu sína og gerði út um leikinn með laglegu skoti. Lokatölur 4-1 fyrir Aftureldingu sem er í 5. sæti deildarinnar með 25 stig. KV er í næst neðsta sæti með 11 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Afturelding 4 - 1 KV
1-0 Marciano Aziz ('36 )
2-0 Marciano Aziz ('60 , víti)
3-0 Javier Ontiveros Robles ('66 )
3-1 Askur Jóhannsson ('80 )
4-1 Marciano Aziz ('92 )
Lestu um leikinn

Fylkir 4 - 3 Selfoss
1-0 Emil Ásmundsson ('4 )
2-0 Birkir Eyþórsson ('41 )
3-0 Emil Ásmundsson ('45 )
3-1 Gary John Martin ('47 )
3-2 Valdimar Jóhannsson ('60 )
4-2 Birkir Eyþórsson ('63 )
4-3 Hrvoje Tokic ('90 , víti)
Lestu um leikinn