fim 18.ágú 2022
Mjólkurbikarinn: Átta mörk og dramatík er Víkingur tryggði sig áfram í undanúrslit
Helgi Guðjónsson skoraði og lagði upp í leiknum
Danijel Dejan Djuric var öflugur í Víkingsliðinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Theodór Elmar skoraði fyrir KR
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Víkingur R. 5 - 3 KR
1-0 Erlingur Agnarsson ('31 )
2-0 Birnir Snær Ingason ('36 )
2-1 Theodór Elmar Bjarnason ('45 )
3-1 Ari Sigurpálsson ('55 )
3-2 Atli Sigurjónsson ('66 )
3-3 Sigurður Bjartur Hallsson ('84 , víti)
4-3 Helgi Guðjónsson ('87 , víti)
5-3 Sigurður Steinar Björnsson ('89 )
Lestu um leikinn

Víkingur R. er komið í undanúrslit Mjólkurbikars karla eftir magnaðan 5-3 sigur á KR á Víkingsvellinum í kvöld.

KR-ingar komu boltanum í netið á 16. mínútu. Hallur Hansson gerði það en var dæmdur rangstæður. KR-ingar voru ósáttir við þessa niðurstöðu enda virtist Hallur ekki rangstæður. Ægir Jarl Jónasson var það hins vegar í aðdragandanum og var dæmt eftir því.

Fyrsta markið kom á 31. mínútu. Erlingur Agnarsson skoraði eftir flotta fyrirgjöf frá Pablo Punyed frá vinstri kantinum. Birnir Snær Ingason tvöfaldaði forystuna fimm mínútum síðar eftir fyrirgjöf frá Helga Guðjónssyni.

Theodór Elmar Bjarnason náði inn mikilvægu marki fyrir KR undir lok fyrri hálfleiks. Kennie Chopart kom með fyrirgjöf og reyndi Ægir Jarl hjólhestaspyrnu, en boltinn datt fyrir Elmar sem kom boltanum í netið. Staðan í hálfleik 2-1 fyrir Víkingum.

Ari Sigurpálsson náði að koma Víkingum aftur í tveggja marka forystu á 55. mínútu eftir sendingu frá Danijel Dejan Djuric, en ellefu mínútum síðar gerði Atli Sigurjónsson annað mark KR-inga með skalla. Stuttu áður hafði Aron Kristófer Lárusson bjargað á línu hinum megin á vellinum.

Á 83. mínútu komu KR-ingar boltanum í netið en Pétur Guðmundsson, dómari leiksins, hafði þegar ákveðið að dæma vítaspyrnu og ákvað að beita ekki hagnaðinum. Sigurður Bjartur Hallsson skoraði úr vítinu og staðan jöfn.

Tveimur mínútum síðar var Danijel rifinn niður í teignum af Pontus Lindgren. Það tók sinn tíma að dæma þessa vítaspyrnu en á punktinn fór Helgi Guðjónsson sem kom Víkingum aftur yfir.

Hinn 18 ára gamli Sigurður Steinar Björnsson innsiglaði sigur Víkinga eftir að hafa komið inná sem varamaður. Hann skaut á milli fóta Arnórs og gat Beitir lítið gert við þessu.

Lokatölur á Víkingsvelli, 5-3. Víkingur er komið áfram í undanúrslit Mjólkurbikarsins og í góðum möguleika á að verja bikarmeistaratitilinn.