fim 18.ágú 2022
Íslendingarnir í Viking einum leik frá riðlakeppninni - Sara Björk þreytti frumraun sína í sigri
Sara Björk í fyrsta keppnisleik sínum með Juventus
Samúel Kári og hans menn í Viking gætu verið á leið í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Norska liðið Viking lagði Steaua Bucharest, 2-1, er liðin mættust í Rúmeníu í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld.

Patrik Sigurður Gunnarsson og Samúel Kári Friðjónsson voru báðir í byrjunarliði Viking í dag.

Það byrjaði ekki vel hjá Viking því rúmenska liðið náði forystunni eftir þrjár mínútur en norska liðið jafnaði tveimur mínútum síðar og komst svo yfir á 35. mínútu.

Samúel Kári fór af velli á 83. mínútu leiksins. Þessi sigur er risastór fyrir Viking sem er í góðri stöðu fyrir síðari leikinn sem fer fram í Noregi í næstu viku.

Stefán Teitur Þórðarson var í byrjunarliði Silkeborg sem tapaði fyrir finnska liðinu HJK Helsinki, 1-0, í Finnlandi. Stefán fór af velli á 70. mínútu en liðin áttust við í umspili Evrópudeildarinnar.

Ögmundur Kristinsson var ekki í leikmannahópi Olympiakos sem gerði 1-1 jafntefli við Apollon frá Kýpur í umspili Evrópudeildarinnar.

Sara Björk Gunnarsdóttir kom inná sem varamaður á 58. mínútu í sínum fyrsta leik fyrir ítalska stórliðið Juventus. Liðið vann Racing Lúxembourg, 4-0, og er komið áfram í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Liðið mætir Kiryat Gat í næstu umferð.

Svava Rós Guðmundsdóttir kom einnig inná sem varamaður er Brann lagði ALG Spor, 1-0, í undankeppni Meistaradeildarinnar en hún kom við sögu á 65. mínútu. Brann spilar við Subotica í næstu umferð.