fim 18.ágú 2022
Ajax hafnaði tilboði Man Utd í Antony
Antony
Hollenska félagið Ajax hafnaði 67,6 milljón punda tilboði Manchester United í brasilíska sóknarmanninn Antony en Sky Sports hefur heimildir fyrir þessu.

Erik ten Hag, stjóri United, reynir nú hvað hann getur til að styrkja hópinn fyrir gluggalok.

Félagið er í viðræðum við Casemiro, leikmann Real Madrid, en það eru ágætis líkur á því að hann verði nýr leikmaður liðsins á allra næstu dögum.

United er þó að vinna í því að fá sóknarmann og hefur Antony, leikmaður Ajax, verið orðaður við félagið í allt sumar. Sky segir nú frá því að Ajax hafi hafnað 67,6 milljón punda tilboði United í leikmanninn.

United er að íhuga að leggja fram annað tilboð en Ajax hefur lítinn áhuga á að selja.

Cody Gakpo, leikmaður PSV, er einnig á lista hjá United, en það virðist raunhæfari kostur. PSV mun ekki skoða tilboð í hann fyrr en eftir leik liðsins við Rangers í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.