sun 28.ágú 2022
Byrjunarlið ÍBV og Stjörnunnar: Reynsluboltar í leikbanni
Eyjamenn verða án fyrirliða síns í leiknum í dag.
Flautað verður til leiks í fyrsta leik 19. umferðar Bestu deildar karla kl. 14 á Hásteinsvelli. Þar taka Eyjamenn á móti Garðbæingum.

Bæði liðin töpuðu í síðustu umferð. ÍBV heimsótti ÍA þar sem heimamenn höfðu betur 2-1. Stjarnan tapaði sama dag heima 2-4 gegn KA og var þetta annar tapleikur liðsins í röð.

Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrirliði ÍBV, er í banni í dag. Heimamenn verða einnig án Atla Hrafns Andrasonar og hjá Garðbæingum tekur reynsluboltinn Daníel Laxdal út leikbann.

Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, gerir þar af leiðandi tvær breytingar á sínu liði frá tapinu gegn ÍA. Alex Freyr tók út leikbann í síðasta leik og kemur aftur inni í liðið í dag. Halldór Jón kemur einnig inn í liðið en hann sat allan tímann á varamannabekk Eyjamanna í síðasta leik.

Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, gerir aðeins eina breytingu á sínu liði frá tapinu gegn KA. Það er tilkomið vegna þess að Daníel Laxdal er í leikbanni eins og fyrr segir. Í hans stað kemur Guðmundur Baldvin Nökkvason.