þri 06.sep 2022
Arnar Grétars: Ég hefði gert hlutina öðruvísi en ég stjórna ekki KA
'Það minnkar líkurnar á því að ná Evrópu'
Það verður vonandi hægt að segja eftir ár að þetta hafi verið hárrétt skref fyrir Nökkva að fara þangað
Mynd: Beerschot

Hann er líka með flotta líkamlega burði, hann er gríðarlega fljótur og með mikla hlaupagetu
Mynd: Fótbolti.net - J.L.

KA seldi Brynjar Inga til Lecce síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ég er náttúrulega ekki sáttur við það en á sama tíma er ég rosalega ánægður fyrir hönd Nökkva að hann sé að fá þetta tækifæri
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Menn þurfa bara að þjappa sér saman og einhverjir aðrir að stíga upp
Mynd: Fótbolti.net - J.L.

Aftur og aftur og aftur úr mismunandi stöðum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Nökkvi Þeyr Þórisson var í dag kynntur sem nýr leikmaður belgíska félagsins Beerschot, félagið kaupir leikmanninn frá KA.

Nökkvi er eins og flestir vita markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar, skoraði sautján mörk í tuttugu leikjum í sumar. KA er í mikilli baráttu um Evrópusæti og þarf liðið að fylla í skarð Nökkva með leikmönnum sem eru í hópnum þar sem félagsskiptaglugginn er lokaður og ekki hægt að fá nýjan leikmann inn.

Það var ekki auðveld ákvörðun fyrir KA að samþykkja tilboð í Nökkva á þessum tímapunkti. Það sagði Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri félagsins, við Fótbolta.net í gær.

Sjá einnig:
Sævar segir ákvörðun KA mjög erfiða, en samt ekki

En hvernig horfir þessi sala við þjálfara liðsins?

„Ef maður er pjúra að horfa á þetta sem þjálfari og út frá því að ná árangri þá er þetta náttúrulega rosalega svekkjandi að missa hann á þessum tímapunkti. Ég er náttúrulega ekki sáttur við það en á sama tíma er ég rosalega ánægður fyrir hönd Nökkva að hann sé að fá þetta tækifæri," sagði Arnar Grétarsson við Fótbolta.net í dag.

„Ég vissi alveg að hann myndi fá þetta tækifæri, vegna þess að hann er búinn að vera svo rosalega flottur. Hann er líka búinn að temja sér ákveðna sviði og venjur sem gera það að verkum að þú nærð árangri. Ég held að þetta sé bara byrjunin á einhverju stærra og skemmtilegra hjá Nökkva."

„Maður var að vona að þeir hefðu leyft honum að klára tímabilið og fara svo út eftir það. Þá vonandi sem markahæsti leikmaðurinn og vonandi KA á góðum stað líka. Það er bara eitthvað sem þýðir ekki að ræða núna. Það eru menn sem stjórna og maður þarf bara að virða það en maður þarf ekkert alltaf að vera sammála því. Ég veit að strákurinn vildi ólmur komast út og félögin hér heima eru að búa til vettvang fyrir þessa stráka til að fara út."


Minnkar líkurnar á því að ná Evrópu
Arnar talar um upphæðirnar sem eru í húfi ef KA nær Evrópusæti.

„Núna er þetta orðið þannig að komast til Evrópu og ná einhverju þar - það eru bara gríðarlegir fjármunir í boði. Menn þurfa að átta sig á því að það að komast í Evrópu eru einhvers staðar um 30 milljónir króna öruggar. Sú upphæð gæti orðið miklu hærri ef þú gerir þokkalega hluti eins og Breiðablik og Víkingur hafa verið að gera. Þá ertu að tala um vel yfir 100 milljónir."

„Verðmiðinn á Nökkvi eftir tímabilið, hann er eitthvað ákveðið. Það verður bara að segjast eins og er, að missa hann núna, það minnkar líkurnar á því að ná Evrópu. Það er bara svoleiðis. Kannski eins og einhver sagði, þá þurfa bara aðrir að stíga upp. Það er það eina sem er í stöðunni,"
sagði Arnar og vitnaði í orð framkvæmdastjórans.

„Þú getur farið að vorkenna sjálfum þér en það er ekkert í stöðunni. Við ætlum að þjappa okkur saman og vonast til þess að Víkingur vinni bikarinn. Þá munu mjög líklega annað og þriðja sætið að gefa eitthvað í deildinni - nema eitthvað annað lið komist þar á milli. Það er ekkert langt í Val en við eigum samt fimm stig á þá. Eins og staðan er núna þá erum við í öðru sæti en Víkingur á leik til góða. Við einblínum á að ná þessu Evrópusæti, ég held að það sé það eina í stöðunni."

„Auðvitað verður verkefnið erfiðara, það gefur auga leið því hann er búinn að standa sig frábærlega, en menn þurfa bara að þjappa sér saman og einhverjir aðrir að stíga upp."


Hefði gert hlutina öðruvísi
Arnar var spurður hreint út, í þessu ferli þar sem viðræður voru á milli Beerschot og KA. Var hann í stöðugum samskiptum við stjórn KA að gera allt sem mögulegt væri til að halda Nökkva út tímabilið.

„Ég vil ekki tjá mig frekar um það. Stjórnin tekur þessa ákvörðun og ég verð að virða hana og geri það. En ég er ekkert sáttur við hana. Ég hefði gert hlutina öðruvísi en ég stjórna ekki KA, ég er að vinna fyrir KA. Ég þarf að sætta mig við það að þessi ákvörðun var tekin."

„Á sama tíma er ég rosalega stoltur af því að Nökkvi er kominn á þann stað sem hann er kominn á. Ég er búinn að vera hér í rúm tvö ár, tveir strákar farnir út sem eiga það svo sannarlega skilið. Báðir voru seldir á miðju tímabili, báðir lykilmenn þegar þeir voru seldir út. Þetta er kannski verra heldur en í fyrra þega við seldum Binna því þá þá gátum við sótt leikmann í staðinn. En það er gaman að sjá þegar strákar stíga upp og eru að standa sig vel."

„Eins og ég hef alltaf sagt, um leið og þú ert í liði og það er að standa sig vel þá munu alltaf einhverjir skína og fá það tækifæri. Liðið þarf að vera standa sig, eins og KA hefur verið að gera síðustu tvö ár."

„Ég ítreka að það hefði verið gaman að geta haldið honum og aukið líkurnar á því að ná Evrópu. Stefnan er áfram mjög klár, við ætlum að stefna á Evrópusæti."


Rosalega flott hugarfar
Arnar þekkir ágætlega til í Belgíu. Hann lék lengi með Lokeren, var yfirmaður íþróttamála hjá Club Brugge og þjálfaði um tíma Roeselare árið 2019. Hvernig metur hann þetta skref - að fara í næstefstu deild í Belgíu - hjá leikmanni sem segja má að hafa verið einn allra besti leikmaðurinn á Íslandi á þessu tímabili?

„Þarna telja þeir eflaust, eftir að hafa ráðfært sig við einhverja menn, að hann eigi góða möguleika á því að byrja spila strax. Beerschot er með flottur klúbbur og mér skilst að það sé erlent eignarhald á félaginu og markmiðið er sett á að fara beint upp. Það verður vonandi hægt að segja eftir ár að þetta hafi verið hárrétt skref fyrir Nökkva að fara þangað, ef hann kemur sér inn í liðið og stendur sig vel."

„Það er þannig með stráka eins og hann; kantmenn, framherjar og sóknarsinnaðir miðjumenn - þó að þú farir á hærra 'level' þá ertu yfirleitt í þeirri stöðu að þú færð tækifæri þrátt fyrir að þú kannski byrjir ekki. Það er öðruvísi ef þú ert hafsent, bakvörður eða djúpur miðjumaður. Það er ekki mikið verið að skipta þeim mikið út. Í þessum sóknarstöðum - ef þú ert að koma inn á í 20 mínútur og stendur þig vel - þá færðu tækifærið."

„Þetta er alveg spennandi klúbbur. Deildin í Belgíu er betri en hér heima þannig að þetta er alls ekki vitlaust skref. Ég hef horft á það þannig að þú reynir að fara eins hátt og þú getur en samt þannig að þú eigir einhvern möguleika á því að spila, því það er alltaf mikilvægt."

„Ég hef bara svo mikla trú á stráknum út af hugarfarinu og hvernig hann er að vinna. Ég held að hann eigi ekki eftir að breytast þegar kemur að því. Þá held ég að þetta sé bara byrjunin á einhverju skemmtilegu. Hann er með svo rosalega flott hugarfar, hvað hann er duglegur. Ég held að hann eigi bar eftir að æfa meira, af því hann er með betri aðstöðu, getur hvílt sig og slíkt. Hann á eftir að fara mjög langt."


„Þetta er það sem er að skila honum"
Það hefur verið talað um þessar aukaæfingar hjá Nökkva. Hvað hefur hann verið að gera?

„Þetta er orðinn vani hjá þeim. Það er góð lína: 'The magic 20 minutes before and after every training'. Að vinna í því sem þú ert að lenda í í leiknum, eftir því í hvaða stöðu þú ert. Hann hefur verið að gera mjög mikið af því sem allir hafa séð í sumar, er með bolta, fer framhjá keilu og skýtur í autt markið. Aftur og aftur og aftur úr mismunandi stöðum."

„Við höfum síðustu tvo vetur alltaf æft tvisvar í viku - og stundum oftar - á morgnana. Nökkvi mætti á hverja einustu æfingu, ásamt fleirum. Binni mætti á allar æfingarnar áðru en hann fór út, fyrir tímabilið 2021. Við erum þar í einstaklingsmiðuðum æfingum miðað við leikstöðu. Nökkvi hefur bara haldið þessu áfram. Núna er aðstaðan betri, hann var reyndar að gera það sama á lélega gervigrasinu. Þetta er það sem er að skila honum."

„Hann er líka með flotta líkamlega burði, hann er gríðarlega fljótur og með mikla hlaupagetu. Hann er með framúrskarandi tölur þegar kemur að því að hlaupa hratt og að hlaupa hratt lengi. Það er það sem allir eru horfa í."

„Það eru bara spennandi tímar framundan hjá honum, ég var að vonast til að þetta myndi gerast eftir tímabilið en þetta er bara mjög lógískt skref. Ég vissi 100% að hann fengi svona tækifæri."

„Þetta er viðurkenning á það sem er verið að gera hjá KA sem er skemmtilegt. Maður er ánægður en samt ekki ánægður. Gæti ekki verið ánægðari fyrir hans hönd en á sama tíma er ég svolítið svekktur að fá ekki að njóta hans hæfileika aðeins lengur,"
sagði Arnar að lokum.

Sjö umferðir eru eftir af Íslandsmótinu og KA er í 2. sæti sem stendur. Víkingur er í 3. sæti, stigi á eftir og á leik til góða. Á Íslandi er keppt um þrjú Evrópusæti, efstu tvö lið deildarinnar eru örugg með slík sæti en svo er eitt Evrópusæti í bikarnum. FH er komið í úrslit Mjólkurbikarsins og ef liðið vinnur Víking í úrslitaleiknum fer liðið í Evrópukeppni. Ef Víkingur vinnur, og endar í öðru af tveimur efstu sætum Bestu deildarinnar, þá fer liðið í 3. sæti deildarinnar einnig í Evrópukeppni.

Sjá einnig:
Arnar og Jói Kalli, eruð þið ekki örugglega að horfa?