þri 13.sep 2022
[email protected]
Hugur Aziz að spila í Bestu deildinni á næsta tímabili
 |
Spilar Aziz í Bestu deildinni? |
Belgíski miðjumaðurinn Marciano Aziz vakti mikla athygli með Aftureldingu í sumar og var valinn í lið ársins í Lengjudeildinni. Hann hefur skorað tíu mörk í tíu leikjum.
Aziz er 21 árs gamall og kom til Aftureldingar á lánssamningi frá Eupen í Belgíu þar sem hann á eitt ár eftir af samningi.
„Hann er opinn fyrir því að fara aftur til Íslands og vill spila aftur á Íslandi. Honum leið rosalega vel í Aftureldingu," segir Bjarki Már Ólafsson hjá Stirr Associates, umboðsskrifstofu leikmannsins, í samtali við 433.is.
„Hugur hans er að spila í efstu deild á Íslandi. Hann var mjög ánægður með þessa reynslu og þetta var það sem hann þurfti á þessum tímapunkti. Nú telur hann að tími sé kominn til að taka næstu skref á sínum ferli. Ef honum býðst tækifæri til að spila í efstu deild á Íslandi væri það eitthvað sem hann væri mjög opinn fyrir." Afturelding er í sjötta sæti Lengjudeildarinnar en lokaumferðin verður leikin á laugardaginn.
|