fös 16.sep 2022
Þrír sem gáfu ekki kost á sér - Jón Daði ekki valinn
Sverrir Ingi Ingason.
Jóhann Berg Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Jón Daði Böðvarsson er ekki valinn að þessu sinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag eftir að hann tilkynnti landsliðshóp sinn fyrir komandi leiki gegn Albaníu og Venesúela.

Sjá einnig:
Landsliðshópurinn - Aron og Alfreð með - Albert ekki

Arnar sagði á fundinum að þrír leikmenn hefðu ekki gefið kost á sér í þetta verkefni af mismunandi ástæðum.

Sverrir Ingi Ingason, miðvörður PAOK, í Grikklandi hefur ekki gefið kost á sér í síðustu verkefni af persónulegum ástæðum. Arnar sagði á fundinum að Sverrir væri ekki með núna þar sem það væru veikindi í fjölskyldu hans.

Hann ætlaði sér að velja Sverri og Jóhann Berg Guðmundsson, leikmann Burnley, en þeir gátu ekki verið með. Jói Berg meiddist aftur lítillega í kálfa í síðustu viku og þessir leikir koma aðeins of fljótt fyrir hann en hann hefur verið einstaklega óheppinn með meiðsli.

Þá gaf Arnór Ingvi Traustason ekki kost á sér þar sem hann er að flytja til Malmö í Svíþjóð á nýjan leik. Hann færði sig nýverið yfir til Malmö eftir dvöl hjá New England Revolution í Bandaríkjunum.

Jón Daði ekki valinn
Sóknarmaðurinn Jón Daði Böðvarsson sem leikur með Bolton á Englandi, er ekki í hópnum. Alfreð Finnbogason, Andri Lucas Guðjohnsen og Sveinn Aron Guðjohnsen eru í hópnum en ekki Jón Daði.

„Jón Daði hefur ekki verið að spila mikið. Hann var meiddur og er að koma til baka. Hann hefur ekkert verið að spila undanfarinn mánuð," sagði Arnar.

„Það er ein af ástæðunum. Ég er mjög ánægður með þá blöndu af senterum sem við erum með í hópnum akkúrat núna."

Guðlaugur Victor kemur inn á nýjan leik
Miðjumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson kemur inn í hópinn á nýjan leik eftir að hafa ekki gefið kost á sér upp á síðkastið. Hann er núna orðinn leikmaður DC United í Bandaríkjunum.

„Ég er mjög ánægður að fá Guðlaug Victor aftur inn. Hann er hluti af því að ala þessa ungu leikmenn upp," sagði Arnar.

„Hann er kominn í nýtt umhverfi í Bandaríkjunum. Hann hefur staðið sig mjög vel. Hann hefur verið að spila á miðjunni og líka í hafsent. Hann getur verið í mismunandi leikstöðum. Það er gott að geta spilað leikmönnum í mismunandi stöðum."