fös 16.sep 2022
[email protected]
Heimir er strax byrjaður að lægja öldurnar
 |
Andre Blake, landsliðsfyrirliði Jamaíku. |
Eyjamaðurinn Heimir Hallgrímsson var fyrir stuttu opinberaður sem nýr landsliðsþjálfari Jamaíku á fréttamannfundi í Kingston, höfuðborg landsins.
Heimir er vinsælasti þjálfari Íslands eftir frábæran árangur með íslenska landsliðið. Hann hefur verið án þjálfarastarfs síðan hann yfirgaf Al Arabi í Katar en hefur í sumar verið ráðgjafi hjá félagi sínu ÍBV í Vestmannaeyjum.
Jamaíka er eyríki í Karíbahafi og landslið þess er í 62. sæti á styrkleikalista FIFA, einu sæti ofar en íslenska landsliðið.
Það hefur verið mikið um vandamál hjá landsliði Jamaíku síðustu ár eins og lesa má um hérna.
Landsliðsfyrirliðinn Andre Blake var ekki valinn í síðasta landsliðshóp þar sem hann gagnrýndi fótboltasamband Jamaíku opinberlega fyrir slök vinnubrögð. Leikmenn hafa verið ósáttir við lélegan aðbúnað, dapurt skipulag og vonda umgjörð í kringum liðið.
Heimir er strax byrjaður að lægja öldurnar því hann hefur kallað Blake inn í hópinn. Hann sagði á fréttamannafundi að hann væri búinn að ræða við Blake og málið væri leyst.
|