þri 20.sep 2022
Fékk tilboð frá Chelsea sex tímum fyrir gluggalok
Denis Zakaria
Svisslendingurinn Denis Zakaria hefur opnað sig um félagaskipti sín frá Juventus til Chelsea en hann segir að leikstíll ítalska liðsins hafi komið sér á óvart.

Chelsea fékk Zakaria á láni út tímabilið en gengið var frá skiptunum á lokadegi gluggans.

Zakaria heyrði í raun fyrst frá Chelsea þegar sex klukkutímar voru eftir af glugganum og eftir það fór boltinn að rúlla.

Hann er ánægður með að vera kominn til Englands og segist hafa verið hissa á leikstíl Juventus.

„Ég vissi ekki að ég gæti farið til Chelsea fyrr en sex tímum fyrir gluggalok," sagði Zakaria.

„Juventus var að spila allt of aftarlega. Þetta er lið sem á að vera á toppnum og vinna alla leiki 3-0. Ég er viss um að ég verði ánægðari á Englandi en í Torínó," sagði hann í lokin.