þri 20.sep 2022
Leeds vildi ekki borga fjórar milljónir punda fyrir Haaland
Erling Braut Haaland
Norski framherjinn Erling Braut Haaland er einn besti framherji heims í dag og verið það síðustu tvö ár. Leeds United gat fengið hann fyrir spottprís fyrir nokkrum árum en hafnaði því.

Þegar Haaland var 17 ára gamall var Leeds í viðræðum við norska félagið Molde um kaup á leikmanninum.

Viðræður voru komnar það langt á veg að honum var boðið að skoða aðstæður, sem hann gerði, en það fór aldrei lengra þar sem Molde vildi fá 4 milljónir punda fyrir framherjann.

Leeds var ekki reiðubúið að greiða þá upphæð og var því hætt við að fá hann.

RB Salzburg keypti hann tveimur árum síðar og allir ættu að þekkja hvernig ferill hans þróaðist. Eftir magnað ár hjá Salzburg fór hann til Borussia Dortmund og raðaði inn mörkum áður en Manchester City keypti hann í sumar.

Haaland er með 14 mörk í 10 leikjum fyrir Man City á sínu fyrsta tímabili og ef hann heldur áfram á sömu braut mun hann stórbæta markametið í efstu deild á Englandi á þessari leiktíð.