þri 20.sep 2022
Enn einn leikmaðurinn til Nottingham Forest (Staðfest)
Adnan Kanuric er mættur til Forest
Nottingham Forest gekk í dag frá samningum við bosníska markvörðinn Adnan Kanuric. Hann kemur á frjálsri sölu og er þetta 23. leikmaðurinn sem félagið fær á tímabilinu.

Nýliðarnir gerðu stórkaup á markaðnum í sumar en þegar búið var að loka glugganum var félagið búið að fá 21 leikmann í hópinn.

Serge Aurier bættist svo við hópinn eftir gluggalok en félögum er áfram heimilt að fá leikmenn á frjálsri sölu.

Forest nældi sér svo í markvörð í dag er Adnan Kanuric skrifaði undir samning við félagið.

Kanuric, sem er 22 ára gamall, er fæddur og uppalinn í Austurríki en á ættir sínar að rekja til Bosníu. Því nýtti hann sér það að spila fyrir yngri landslið Bosníu og Herzegóvínu.

Hann var áður á mála hjá Stoke City og RB Salzburg en hefur síðastliðin tvö ár spilað fyrir Sarajevo í Bosníu. Samningur hans rann út í sumar og hefur nú Forest fengið hann inn í hópinn en hann mun æfa með aðalliðinu og spila fyrir U21 árs liðið til áramóta.