mið 21.sep 2022
Toney fékk kjánahroll við að lesa færslu Gabriel
Ivan Toney
Gabriel vildi endurvekja brandarann en Toney var ekki hrifinn af því
Mynd: EPA

Enski framherjinn Ivan Toney viðurkennir að hann fékk smá kjánahroll við að lesa færslu brasilíska varnarmannsins Gabriel eftir 3-0 sigur Arsenal á Brentford um helgina.

Þetta mál má rekja til síðasta árs þegar Brentford vann Arsenal 2-0 í byrjun síðasta tímabils.

Toney birti þá færslu eftir sigurinn og sagði þá í gríni „Gaman að sparka í bolta með strákunum."Þessi færsla fór á flug og þótti nokkuð fyndin á þeim tíma en leikmenn Arsenal gátu ekki beðið eftir að svara fyrir það. Arsenal vann síðari leikinn, 2-1, í febrúar og þá gat Alexandre Lacazette svarað með sama texta og Toney birti fyrr á tímabilinu.

Brandarinn var þá fullkomnaður. Arsenal tókst að svara fyrir sig en þessi ágæti brandari birtist aftur eftir 3-0 sigur Arsenal á Brentford um helgina og nú var það Gabriel sem birti sama texta en Toney fékk kjánahroll við það að lesa færsluna.

„Ég held að þetta hafi verið fyndið í fyrsta skiptið en það fór smá kjánahrollur um mig í annað skiptið. Ég þurfti að bíta í tunguna því mig langaði til að svara og narta aðeins í hann," sagði Toney.

„En vel gert hjá þeim. Þetta er allt annað Arsenal-lið en það sem við höfum áður spilað við."