mið 21.sep 2022
Landsliðsþjálfari Úkraínu stendur við orð sín
Oleksandr Petrakov.
Oleksandr Petrakov, landsliðsþjálfari Úkraínu, segist ekki óttast sekt frá UEFA og stendur við orð sín um að hann sé tilbúinn að vopnast og berjast gegn Rússum.

Rússneska fótboltasambandið krafðist þess að Petrakov yrði dæmdur í bann en hann hefur verið sektaður fyrir ummæli sín.

Ekki er búið að gefa út hversu há sektin er en úkraínska fótboltasambandið er sagt ætla að áfrýja og sé tilbúið að borga sektina sjálft ef þess þarf.

„Ég er tilbúinn að endurtaka allt sem ég hef sagt áður. Ég stend við orð mín," segir hinn 65 ára Petrakov.

„Ef ráðist er inn í heimaborg mína Kænugarð þá mun ég taka upp vopn og verja borg mína. Ég er 64 ára gamall en mér þætti þetta eðlilegt. Ég gæti tekið tvo eða þrjá óvini úr leik," sagði Petrakov fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Rússar hafa krafist þess að hann sé dæmdur í bann fyrir að geta ekki haldið pólitísku hlutleysi.