mið 21.sep 2022
Gúgglaði hvernig ætti að brjóta hnéskel fyrir árásina
Diallo og Hamraoui í leik á Kópavogsvelli.
Núna hafa komið upp nýjar vendingar í máli Aminata Diallo gegn Kheira Hamraoui, en þær voru liðsfélagar hjá franska stórliðinu Paris Saint-Germain.

Diallo, sem er félagslaus eftir tíma sinn hjá PSG, var handtekin í annað sinn fyrr í þessum mánuði vegna líkamsárásar sem átti sér stað í fyrra.

Grímuklæddir menn drógu Hamraoui, sem var þá liðsfélagi Diallo hjá PSG, úr bifreið og börðu hana í fótleggina með járnröri. Diallo var með Hamraoui í bifreiðinni en árásarmennirnir létu hana eiga sig.

Diallo var þá ásökuð um að hafa skipulagt árásina en ekki fundust næg sönnunargögn. Diallo hefur verið til rannsóknar hjá lögreglu og var hún aftur handtekin fyrr í þessum mánuði.

Í frétt Le Parisien segir að Diallo hafi þróað með sér hatur gagnvart Hamraoui og hafi litið á hana sem hindrun gagnvart sínum eigin ferli. Lögreglan hleraði síma Diallo og komst víst að því að hún hafi 'gúgglað' það hvernig ætti að brjóta hnéskel og hvernig ætti að blanda saman eitraðan lyfjakokteil. Þetta eru ný sönnunargögn í málinu.

Diallo hefur ávallt neitað sök en hún er þessa stundina í gæsluvarðhaldi vegna málsins.