mið 21.sep 2022
Benítez var hræddur við að gera breytingar hjá Everton

Rafa Benítez var í áhugaverðu viðtali hjá Sky Sports þar sem hann ræddi tímann sinn hjá Everton. Hann var í rúmt hálft ár í starfi en var rekinn í janúar á þessu ári.Rafa Benítez stýrði erkifjendunum í Liverpool 2004-2010 og vann m.a. Meistaradeildina árið 2005. Hann var hræddur við að gera stórvægilegar breytingar hjá Everton vegna tengingarinnar.

„Á sínum tíma kom Everton með tilboð, ég vissi að ég myndi gefa allt í þetta til að bæta hlutina. Ég vissi að það yrði erfitt því ég var hjá Liverpool svo ég gat kannski ekki tekið ákvarðanir. Það var ljóst frá upphafi," sagði Benítez.

„Ég fundaði með yfirmanni í félaginu og spurði hvort það væri allt í lagi, hann sagði; Allt í toppstandi. Félagið var búið að eyða 600 milljónum punda, það getur ekki verið í toppstandi þegar eigendur og stuðningsmenn eru ósáttir."

„Svo ég áttaði mig á því að ég varð að gera breytingar innan félagsins en ég gæti ekki gert það strax því ég er fyrrum stjóri LIverpool og menn færu að segja; 'Jæja hann er mættur til að breyta félaginu okkar."