mið 21.sep 2022
Grealish hlustar bara á mömmu og pabba
Jack Grealish leikmaður Manchester City hefur mikið verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í búningi Manchester City en hann svaraði vel fyrir sig þegar hann skoraði í 3-0 sigri á Wolves um helgina.

Hann náði vel saman við Erling Haaland og Kevin de Bruyne. Graeme Souness gagnrýndi hann á Sky Sports þar sem hann sagði að hann væri frábær fótboltamaður en enginn liðsmaður.

Grealish skilur ekkert í þessum orðum.

„Ég veit ekki hvað hann hefur svona á móti mér. Hann er alltaf að tala um mig en ég reyni að lesa það ekki of mikið," sagði Grealish.

„Það er erfitt þegar hann er á Sky Sports og það er út um allt á æfingasvæðinu stundum. Hann var frábær leikmaður og vann mikið en ég veit ekki hvað hann hefur á móti mér."

Hann hlustar bara á mömmu og pabba.

„Ég hef þurft að læra að díla við þetta, það væri annað ef einhver eins og pabbi eða mamma væru að segja þetta þá myndi ég hlusta meira."