fim 22.sep 2022
Zamburek svekktur að hitta ekki Patrik - „Augu margra njósnara á honum"
Í baráttunni við Conor Gallagher (England) í undankeppninni.
Patrik er með A-landsliðinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Adam Hlozek
Mynd: EPA

Jan Zamburek er leikmaður tékkneska U21 landsliðsins og Viborg í Danmörku. Hann ræddi við Fótbolta.net á Hótel Íslandi í dag um leikinn gegn Íslandi sem fram fer á Víkingsvelli á morgun. Leikurinn er fyrri leikur liðanna í umspili fyrir EM og fer sá seinni fram í Tékklandi næsta þriðjudag.

„Við vitum að þeir tryggðu sér sæti í umspilinu í síðasta leiknum og komust upp fyrir Grikkland. Þetta er lið sem leggur hart að sér á vellinum og hefur ekki fengið meira en eitt mark á sig í leik. Liðið náði t.d. mjög góðum úrslitum gegn Portúgal, 1-1. Þeir spila í kerfinu 5-3-2 og við búumst við erfiðum leik."

Er eitthvað sérstakt sem Tékkarnir þurfa að passa sig á í leik íslenska liðsins á morgun?

„Ég held að þetta snúist meira um okkur, við reynum að einbeita okkur að okkur og okkar leikkerfi, hvernig við getum nýtt það gegn leikkerfi Íslands. Við undirbúum okkur undir helstu styrkleika íslenska liðsins og veikleika. En eins og ég segi snýst þetta mest um okkur."

„Eins og í öllum fótboltaleikjum veistu aldrei hvað mun gerast. Ef við gerum okkar hluti vel þá getum við komist á EM."


Zamburek þekkir ekki leikmann í U21 landsliðinu en hann kannast vel við Patrik Sigurð Gunnarsson sem er í A-landsliðinu. Patrik og Zamburek voru samherjar hjá Brentford.

„Við erum góðir vinir, við vörðum miklum tíma saman á Englandi. Vorum hjá sömu fósturfjölskyldunni og ég sendi honum SMS í morgun að ég væri loksins kominn til landsins hans. Það er pínu svekkjandi að hann sé ekki hér núna en hann mun örugglega horfa á leikinn og ég óska honum góðs gengis með landsliðinu."

„Við höldum enn sambandi, hann er góður gæi. Ég held að skrefið hafi verið gott, að fara til Viking í Noregi, því hann spilar alla leiki. Viking spilaði á móti tékkneska liðinu Sparta Prag í undankeppni Sambandsdeildarinnar og það eru nokkrir leikmenn hér sem spila með Sparta Prag. Það eru augu margra njósnara á honum og það sem ég hef heyrt er að hann sé að gera góða hluti hjá Viking."


Tékkneska liðið kom til Íslands í gær. „Í morgun var komin rigning en vonandi komumst við í göngutúr seinni partinn og sjáum eitthvað. Við vitum að þetta er fallegt land."

Zamburek er einungis einn af þremur leikmönnum tékkneska liðsins sem spilar utan Tékklands. Hvernig kemur til að hann sé að spila í Danmörku?

„Ég var hjá Brentford og þar voru margir Danir, leikmenn og þjálfarar. Viborg sýndi mér áhuga fyrir tveimur árum síðan. Þjálfari varaliðsins hjá Brentford (Lars Friis) tók við sem þjálfari Viborg og það var einn af stærstu þáttunum í að ég ákvað að fara. Þjálfarinn fór reyndar stuttu seinna en ég er samt ánægður með þessa ákvörðun hjá mér."

Tveir leikmenn A-landsliðs Tékka eru gjaldgengir í U21 landsliðið. Það eru þeir David Zima (Torino) og Adam Hlozek (Bayer Leverkusen). Saknið þið þeirra?

„Þeir hafa ekki verið með okkur í gegnum alla undankeppnina, þeir hafa verið í A-landsliðinu. Ég persónulega þekki þá ekki það mikið, við höfum spilað án þeirra alla undankeppnina og því ekki hægt að segja að við söknum þeirra. Auðvitað gætu þeir hjálpað okkur ef þeir væru hér en þeir eru í plönunum hjá A-landsliðinu," sagði Zamburek að lokum.

Leikurinn á morgun hefst klukkan 16:00.