fös 23.sep 2022
Á bekknum hjá FH en varði mark Færeyja
Gunnar Nielsen.
Þrátt fyrir að hafa misst stöðu sína í markinu hjá FH þá fær Gunnar Nielsen traustið hjá Hakan Ericson, landsliðsþjálfara Færeyja. Gunnar varði mark færeyska landsliðsins í 1-1 jafntefli gegn Litháen í Þjóðadeildinni í gær.

Gunnar lék síðast með FH í Bestu deildinni þann 7. ágúst en hann missti stöðu sína til Atla Gunnars Guðmundssonar sem hefur staðið í marki FH-inga síðan.

Jafnteflið í gær innsiglar áframhaldandi veru Færeyja í C-deild Þjóðadeildarinnar. Patrik Johannesen, leikmaður Keflavíkur, kom inn af bekknum á 77. mínútu í leiknum.

Færeyska landsliðið fer pressulaust í leik gegn Tyrklandi í næstu viku en Ericson landsliðsþjálfari talaði um það fyrir landsleikjagluggann að Teitur Matras Gestsson, markvörður HB, myndi spila þann leik. Gunnar og Teitur eru í harðri samkeppni um markvarðarstöðuna.

Tyrkland er þegar búið að vinna riðilinn og fer upp í B-deildina. Litháen fellur niður í D-deild.