lau 24.sep 2022
„Richarlison þefar uppi mörkin"
Richarlison
Brasilíski framherjinn Richarlison skoraði tvö mörk er Brasilía vann Gana, 3-0, í vináttuleik í gær, en sá hefur verið að raða inn mörkunum fyrir landsliðið á þessu ári.

Richarlison gerði bæði mörk sín í fyrri hálfleiknum gegn Gana og var það Neymar sem lagði þau upp.

Framherjinn knái er í frábæru formi fyrir HM í Katar en hann hefur skorað sex mörk fyrir landsliðið á þessu ári og er svo gott sem öruggur með sæti í hópnum fyrir stórmótið.

Tite, þjálfari brasilíska landsliðsins, er virkilega ánægður með frammistöðu leikmannsins.

„Richarlison þefar uppi mörkin. Honum er drullusama, hann lætur bara vaða á markið. Hann vill bara skora," sagði Tite eftir leikinn gegn Gana.

Brasilíumaðurinn hefur skorað tvö mörk fyrir Tottenham frá því hann kom frá Everton í sumar en bæði mörk hans komu í 2-0 sigri á Marseille í Meistaradeild Evrópu.