mán 26.sep 2022
Gunnhildur skoraði en liðið kastaði frá sér sigrinum eftir það
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var á skotskónum þegar Orlando Pride gerði svekkjandi jafntefli gegn San Diego Wave á heimavelli sínum seint í gærkvöldi.

Gunnhildur Yrsa kom Orlando í 2-0 þegar rúmar 20 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Hún kom Orlando í þægilega stöðu með sínu öðru deildarmarki á tímabilinu en stuttu eftir það komst San Diego í gírinn. Þær minnkuðu muninn á 76. mínútu og jöfnuðu svo metin er þrjár mínútur voru eftir.

Þetta er ekki búið að vera sérstakt tímabil fyrir Orlando; liðið á einn leik eftir og er í níunda sæti af tólf liðum.

Gunnhildur, sem er 33 ára, vildi ekki gefa það upp hvort hún yrði áfram hjá Orlando er hún ræddi við Fótbolta.net fyrr í þessum mánuði.

„Þetta er búið að vera rosa upp og niður, mjög erfitt utan vallar. Mikið bakvið tjöldin sem er í gangi og hefur kannski áhrif á liðið. Ég held að það þurfi margt að gerast hjá félaginu til þess að það komi til baka eftir það. Við erum núna með þjálfara sem var ráðinn tímabundið og hann er búinn að standa sig frábærlega," sagði Gunnhildur.

Verið er að rannsaka eineltismál og annað misferli er varðar þjálfara liðsins sem sendur var í leyfi á meðan rannsókn á málinu stendur.

Gunnhildur er reynd landsliðskona og er auðvitað í hópnum fyrir leikinn í umspilinu fyrir HM í næsta mánuði.