mán 26.sep 2022
„Hvernig getur Ronaldo sofið á nóttinni?"
Cristiano Ronaldo.
Fyrir helgi var Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United, ákærður af enska fótboltasambandinu fyrir atburð sem átti sér stað á síðustu leiktíð.

Það náðist þá á myndband þegar Ronaldo braut símann hjá áhorfenda á leik Man Utd gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni. Ronaldo var pirraður er hann tók símann og grýtti honum í jörðina af miklum krafti.

Hinn 37 ára gamli Ronaldo notaði samfélagsmiðla til að biðjast afsökunar á hegðun sinni.

Síminn var í eigu unglings sem styður við bakið á Everton. Hann er einhverfur en móðir hans hefur kallað eftir því að Ronaldo fái harða refsingu.

„Hegðun hans er óásættanleg," segir Sarah Kelly, móðir stráksins, í samtali við Mirror. „Ég skil þetta ekki, hann getur ráðist á barn og haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Hvernig getur hann sofið á nóttinni eftir það sem hann gerði?"

Hún segir að sonur sinn sé enn í áfalli en þau hafi ekki fengið neinar miskabætur frá portúgölsku ofurstjörnunni.

Núna gæti Ronaldo verið á leið í leikbann, en það verður fróðlegt sjá hvort og þá hvernig refsingu hann mun fá fyrir þetta.