mán 26.sep 2022
Skildi val Davíðs Snorra - „Ánægður að fá símtalið"
'Ég treysti mér alveg 100% í þá stöðu'
„Tilfinningin er mjög góð, ég var ánægður að fá símtalið frá Davíð (Snorra Jónassyni, þjálfara)," sagði Birkir Heimisson, leikmaður U21 landsliðsins, sem var kallaður inn í landsliðshópinn á laugardag. Birkir ræddi við Fótbolta.net fyrir æfingu liðsins í Budojevice í dag.

Birkir kom inn þegar ljóst var að Sævar Atli Magnússon gæti ekki spilað seinni leikinn gegn Tékklandi í umspilinu þar sem hann tekur út leikbann.

Birkir var í landsliðshópnum í júní en var ekki í upprunalega hópnum fyrir þetta vekrefni. Voru það vonbrigði?

„Maður vonast alltaf til að vera þar en ég er svo sem líka aðeins búinn að vera á bekknum hjá Val þannig að það var kannski alveg skiljanlegt."

Seinni leikur Íslands gegn Tékklandi fer fram á morgun og er Ísland einu marki undir í einvígnu.

Birkir spilar oftast á miðjunni hjá Val en hefur leyst stöðu miðvarðar hjá U21. Er hann klár í bæði hlutverk ef kallið kemur á morgun?

„Ég er búinn að spila nokkra leiki með landsliðinu í miðverði, ég treysti mér alveg 100% í þá stöðu. Maður hefur aðeins meiri tíma á boltanum og hefur allan völlinn fyrir framan sig. Það er mjög fín staða," sagði Birkir.

Í lok viðtalsins, sem má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan, er Birkir spurður út í tímabilið hjá Val sem og samnings mál sín.