þri 27.sep 2022
Góðir dagar fyrir Bellingham fjölskylduna
Jude Bellingham.
Jude Bellingham er bara 19 ára en hann hefur sýnt það og sannað að hann eigi að vera eitt fyrsta nafnið á blað hjá enska landsliðinu á HM í Katar í vetur.

Hann er búinn að leika afar vel með Borussia Dortmund í Þýskalandi og er búinn að vera ljósasti punkturinn í liði Englands sem hefur ekki verið að spila sérlega vel upp á síðkastið.

Bellingham sýndi gæði sín þegar England gerði 3-3 jafntefli við Þýskaland í Þjóðadeildinni í gærkvöldi. Hann var valinn maður leiksins.

Það virðast vera ansi góð gen í Bellingham fjölskyldunni því yngri bróðir Jude er líka að brillera.

Sá heitir Jobe og var á dögunum valinn besti leikmaður enska U18 landsliðsins á æfingamóti á Spáni. Þetta hafa verið býsna góðir dagar fyrir Bellingham fjölskylduna upp á síðkastið.

Jobe er bara 17 ára en hann er nú þegar byrjaður að spila með aðalliði Birmingham.