þri 27.sep 2022
Vinsældir Mbappe dala á öllum vígstöðum
Vinsældir Mbappe hafa minnkað til muna.
Franski landsliðsmaðurinn Kylian Mbappe er klárlega einn besti leikmaður í heimi en vinsældir hans eru að minnka.

Mbappe skrifaði í sumar undir risa samnning við Paris Saint-Germain sem gerði hann að launahæsta leikmanni í heimi. Einnig fékk hann meiri ábyrgð hjá PSG og kemur hann að leikmanna- og þjálfaramálum. Hann er orðinn eins konar Lebron James fótboltans ef svo má að orði komast.

Spænski fjölmiðillinn El Confidencial segir frá því í dag að vinsældir Mbappe séu farnar að minnka þar sem hann er farinn að líta of stórt á sjálfan sig. Vinsældir hans hafa ekki bara minnkað innan leikmannahópsins, þær hafa líka gert það út á við hjá almenningi.

Mbappe lenti upp á kant við brasilísku stórstjörnuna Neymar í sumar og vildi selja hann, en það gekk ekki upp. Hann og Lionel Messi eru þá engir vinir.

Almenningsálitið gagnvart Mbappe hefur breyst, það hefur dalað og í búningsklefanum er litið á hann sem frekt barn.