þri 27.sep 2022
Einkunnir U21: Andri Fannar bestur í grátlegu jafntefli
Andri átti mjög góðan leik.
Dagur Dan í leiknum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Virkilega góð frammistaða hjá liðinu, afskaplega svekkjandi niðurstaða.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Íslenska U21 landsliðið mætti í dag Tékklandi í seinni umspilssleik liðanna um sæti á EM og var niðurstaðan svekkjandi jafntefli, 0-0.

Tékkland vann fyrri leikinn með einu marki og er því á leið á EM.

Einkunnir Íslands:
Hákon Rafn Valdimarsson - 7
Varði það sem kom á markið, tvisvar sinnum mjög vel, smá bras þegar kom að því að koma boltanum frá sér í einstaka skipti en slapp.

Róbert Orri Þorkelsson - 7
Var í brasi í fyrri hálfleik í uppspilinu, það batnaði aðeins en löngu boltarnir voru ekki að tengja. Góður í seinni hálfleik.

Ísak Óli Ólafsson - 7
Flott frammistaða í hjarta varnarinnar. Uppspilið er ekki hans helsti styrkleiki og hann lét aðra um það að mestu.

Valgeir Lunddal Friðriksson - 7
Öruggur í öllum sínum aðgerðum, leysti stöðu hægri miðvarðar vel. Fékk dauðafæri í lok leiks, sennilga besta færi leiksins, en Kovar sá við honum. Fékk rautt í uppbótartíma.

Dagur Dan Þórhallsson ('72) - 7
Átti fínasta dag í vinstri vængbakverðinum. Átti flott tilþrif við vítateig Tékka í seinni hálfleik sem enduðu með skoti sem fór hársbreidd framhjá.

Óli Valur Ómarsson ('72) - 7
Var ógnandi fram á við og byrjaði vel. Var í smá vandræðum varnarlega og skilaði boltanum ekki nægilega vel frá sér. Lagði upp dauðafæri fyrir Orra Stein.

Andri Fannar Baldursson - 8
Annan leikinn í röð besti maður Íslands, hefði verið besti maður vallarins ef það væri ekki fyrir Kovar í marki Tékka. Mikið svægi í honum og allt svo áreynslulaust. Geggjuð tilþrif í seinni hálfleik þegar Kovar þurfti að taka á honum stóra sínum.

Kolbeinn Þórðarson ('80) - 6
Fínasta frammistaða, verður ekki sakaður um að vera ekki duglegur. Ekki alveg kominn í 90 mínútna form og það dró aðeins af honum síðustu mínúturnar inn á vellinum.

Kristian Nökkvi Hlynsson - 6
Augljós gæði í sem hann sýndi í nokkrum rispum en þær hefðu þurft að vera fleiri. Sást lítið í seinni hálfleik.

Brynjólfur Willumsson ('89) - 6
Fyrirliðinn gerði svo sem ágætlega í þessum leik, nokkrar rispur eins og hjá Kristian og frábær skipting yfir á Óla Val þegar Orri fékk dauðafærið í kjölfarið. Vantaði aðeins upp á til að valda þéttum varnarmúr Tékka usla.

Orri Steinn Óskarsson - 6
Var ekki alveg að tengja við Brynjólf og var aðeins út úr leiknum á köflum. Vel staðsettur þegar hann fær boltann frá Óla Val en nagar sig eflaust í handarbökin að hafa ekki sett boltann á markið.

Varamenn spiluðu of stutt til að fá einkunn:

('72) Bjarki Steinn Bjarkason

('72) Logi Tómasson

('80) Þorleifur Úlfarsson

('89) Hilmir Rafn Mikaelsson