þri 27.sep 2022
U21: Ísland missti af sæti á EM
Ísland fer ekki á EM. Kristian Nökkvi svekktur eftir leikinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Tékkland U21 0 - 0 Ísland U21 (2-1, Tékkland fer á EM)
Lestu um leikinn

Íslenska karlalandsliðið skipað leikmönnum 21 árs og yngri mun ekki spila á Evrópumótinu í Georgíu og Rúmeníu á næsta ári eftir að liðið gerði markalaust jafntefli við Tékkland á Strelecky ostrov-leikvanginum í dag. Grátleg úrslit miðað við færin sem íslenska liðið fékk.

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og voru heimamenn að láta finna fyrir sér.

Tékkar voru rændir vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks er Kristian Nökkvi Hlynsson braut af sér, en dómarinn veifaði því frá og íslenska liðið stálheppið að fá ekki á sig víti.

Í þeim síðari var mikill ferskleiki í íslenska liðinu. Andri Fannar Baldursson átti frábær tilþrif fyrir framan vítateig Tékka áður en hann lét vaða á markið en Matej Kovár, markvörður heimamanna, varði meistaralega.

Stuttu síðar átti Dagur Dan Þórhallsson skot rétt framhjá markinu og virtist þá styttast í fyrsta mark leiksins. Orri Steinn Óskarsson kom sér í gott færi á 64. mínútu en skalli hans fór framhjá eftir fyrirgjöf Óla Vals Ómarssonar.

Þegar um það bil fimmtán mínútur voru eftir átti Kolbeinn Þórðarson hörkuskot sem Kovár varði út í teiginn, en varnarmenn Tékka náðu að hreinsa frá.

Íslenska markið kom aldrei en Valgeir Lunddal Friðriksson komst grátlega nálægt því að skora undir lokin eftir fyrirgjöf Þorleifs Úlfarssonar. Valgeir fékk boltann á fjærstönginni en Kovár varði skot hans. Þvílíkt dauðafæri. Það hefur eitthvað pirrað Valgeir því stuttu síðar var hann rekinn af velli eftir að hafa hrint leikmanni Tékka.

Markalaust í Tékklandi og þýðir það að heimamenn fara áfram í lokakeppni Evrópumótsins. Það vantaði svo lítið upp á til að ganga frá leiknum en engu að síður hetjuleg barátta hjá strákunum.