þri 27.sep 2022
„Það er á svona kvöldum sem maður fær staðfestingu á að liðið er orðið að liðsheild"
Arnar Þór Viðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Mynd: EPA

Landsliðsþjálfarinn, Arnar Þór VIðarsson, var ánægður með þessa óbilandi trú og baráttu sem liðið sýndi í 1-1 jafnteflinu gegn Albaníu í Tírana í Þjóðadeildinni í kvöld.

Ísland missti landsliðsfyrirliðann, Aron Einar Gunnarsson, af velli á 10. mínútu er hann fékk að líta rauða spjaldið. Brekkan var brött eftir það og komst Albanía yfir þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum.

Í þeim síðari barðist liðið vel og fór að pressa heimamenn. Eftir nokkrar ágætis tilraunir kom jöfnunarmarkið þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Arnar sagði tilfinninguna góða.

„Hún er þannig. Einfaldlega vegna þess að liðið barðist allan tímann og gáfust aldrei upp. Héldu áfram að hafa trú á að það væru möguleikar. Við vissum að það slökknar svolítið á þeim síðustu tuttugu mínúturnar, ekki bara í kvöld, heldur í fleiri leikjum. Ég get ekki verið meira stoltari af öllum þessum 23 leikmönnum sem voru með okkur í dag. Það trúðu allir að það væri eitthvað hægt og sögðum í hálfleik ef við höldum áfram að hlaupa fyrir hvorn annan þá myndu þeir fá færi og ekki bara þeir sem byrjuðu inná heldur þeir sem komu inná stóðu sig frábærlega," sagði Arnar við Hörð Magnússon á Viaplay.

Arnar var ekki viss um að rauða spjaldið átti að standa og fannst grimmt að vísa honum af velli.

„Nei, mér fannst það 'soft'. Ég var að horfa á það aftur og það sem gerist er að það er tosað í handlegg. Þú sérð öxlina á Aroni leggjast í raun niður þannig þess vegna kemst hann fram fyrir hann. Ég veit að dómaranum langaði ekkert að gefa þetta rauða spjald en svona er þetta. Þetta getur gerst og við vorum klárir með plan B fyrir svona hluti og strákarnir útfærðu það nánast fullkomlega. Auðvitað fengum við einhver færi á okkur en eins og þú sérð síðasta hálftímann þá vorum við byrjaðir að pressa þá hátt og þeir lentu í basli með okkur."

Arnar var ánægður með alla leikmennina í hópnum, líka þá sem komu ekki við sögu. Hann fékk þá staðfestingu á því í þessum leik að liðsheildin væri til staðar.

„Þeir sem byrjuðu inná og hlupu úr sér lungun allan leikinn og þeir sem komu inná skiluðu þessu stigi og svo má ekki gleyma því að það voru nokkrir á bekknum sem komu ekki inná og þeir voru allir jafn ánægðir með þetta stig. Það sem mér finnst vera mikilvægast í þessu er að það er á svona kvöldum sem maður fær staðfestingu á því að liðið er orðið að liðsheild og það er það sem við höfum verið að vinna í og við höfum alltaf sagt að við erum að undirbúa liðið fyrir næstu undankeppni sem hefst á næsta ári og þetta var aftur skref í rétta átt."

Alfreð Finnbogason, Aron Einar Gunnarsson og Guðlaugur Victor Pálsson snéru allir aftur í landsliðshópinn fyrir þetta verkefni, en vonast hann til að geta fengið fleiri stjörnur til baka sem spiluðu á EM og HM?

„Ég vona það. Það sem hefur verið jákvætt er að menn eru hungraðir og vilja spila fyrir íslenska landsliðið. Það er jákvætt og ég sagði það þegar við tilkynntum hópinn fyrir viku að við erum með Jóa B, Sverri og fleiri leikmenn sem eru líka hungraðir að koma til baka og ég vona að við getum valið okkar sterkasta lið og hóp og þá er ansi mikið mögulegt og hlakka til að vinna með þetta lið," sagði hann í lokin.