mið 28.sep 2022
Skondið val hjá stuðningsmönnum Atlético - Griezmann bestur í september
Antoine Griezmann, leikmaður Atlético Madríd á Spáni, er leikmaður mánaðarins hjá félaginu.

Griezmann, sem er 31 árs gamall, er auðvitað stútfullur af gæðum og ætti algerlega erindi í að vera besti leikmaður mánaðarins, en það er af öðrum ástæðum sem hann er valinn í þetta sinn.

Eins og flestum ætti að vera kunnugt um þá er Griezmann ekki byrjunarliðsmaður hjá Atlético og ástæðan er einföld; Atlético vill ekki greiða Barcelona 40 milljónir evra fyrir hann.

Griezmann er á láni hjá Atlético frá Barcelona en sá lánssamningur gildir út leiktíðina. Ef Griezmann spilar 45 mínútur eða meira þá telst það sem einn leikur.

Ef hann spilar helming allra leikja fyrir Atlético á tímabilinu þá þarf félagið að festa kaup á honum og greiða 40 milljónir evra. Því hefur Diego Simeone, þjálfari liðsins, verið að skipta honum inná á 63. mínútu í leikjunum á tímabilinu.

Atlético mun þó byrja honum í stórleikjum, eins og í síðasta leik er hann spilaði allan leikinn í 2-1 tapi fyrir nágrönnum þeirra í Real Madrid, en annars er það þessi klassíki hálftími sem hann fær.

Spænska félagið er í viðræðum við Barcelona um að lækka kaupverðið niður í 20 milljónir evra en það hefur þó ekki enn komin lausn í það mál.

Griezmann, sem skoraði eitt og lagði upp eitt í september, var svo í gær valinn besti leikmaður mánaðarins en það voru stuðningsmenn sem kusu og þarna augljóslega verið að hnýta í Börsunga.