fim 29.sep 2022
[email protected]
Andri Fannar á Mihajlovic mikið að þakka - „Leiðinlegar fréttir"
Andri Fannar Baldursson spilaði frábærlega með u21 árs landsliðinu í leikjunum gegn Tékkum í vikunni.
Þessi tvítugi miðjumaður er á láni hjá NEC í Hollandi frá ítalska liðinu Bologna. Sinisa Mihajlovic fyrrum stjóri Bologna var rekinn fyrr í þessum mánuði en Andri á honum mikið að þakka. „Auðvitað leiðinlegar fréttir. Ég skil smá ákvörðunina, hann er búinn að vera mikið fjarverandi og á háum launum. Árangurinn ekki alveg eins og þeir vildu, búið að eyða miklu í þetta," sagði Andri. „Svona er þessi fótbolti, harður og ekki alltaf sanngjarn. Þetta er leiðinlegt fyrir mig því þessi þjálfari gaf mér sénsinn í Serie A og ég á honum helling að þakka." Það eru miklar breytingar á teyminu hjá Bologna en Andri segist ekki hafa rætt við nýja teymið. Thiago Motta er nýr stjóri liðsins. „Sjáum hvað gerist eftir tímabilið í Hollandi, hvort ég fari aftur til Bologna. Við tökum bara stöðuna, ég er ekkert að stressa mig á því," sagði Andri að lokum.
|