fös 30.sep 2022
Bæði Perú og Síle vilja HM sætið frá Ekvador
Mynd: Getty Images

Perú og Síle segjast vera með gögn sem sanna að Byron Castillo, landsliðsmaður Ekvador, hafi spilað ólöglega í undankeppni Suður-Ameríkuþjóða fyrir HM.Því er haldið fram að Castillo sé í raun fæddur í Kólumbíu og að ekvadorski ríkisborgararétturinn hafi verið falsaður. Varnarmaðurinn er einnig sakaður um að ljúga til um aldur.

Ekvador tryggði sér beint sæti á HM en Perú og Síle, sem enduðu í tveimur af næstu sætum fyrir neðan, ákváðu að kæra úrslit undankeppninnar til FIFA. Alþjóðaknattspyrnusambandið dæmdi Castillo og Ekvador í hag en Perú og Síle eru búin að áfrýja málinu til CAS, Alþjóðlega íþróttadómstólsins í Sviss.

Beiðnir landsliðanna til CAS eru þó mismunandi. Perú vill einfaldlega að Ekvador fái ekki þátttökurétt á HM. Það myndi leiða til þess að Perú tæki sæti Ekvador á lokamótinu eftir að hafa endað í fimmta sæti undankeppninnar og tapað umspilsleik við Ástralíu um sæti í Katar.

Síle vill hins vegar að leikirnir sem Castillo spilaði í verði dæmdir ógildir. Síle, sem endaði í sjöunda sæti, fékk aðeins eitt stig af sex mögulegum gegn Ekvador og myndi stökkva upp í fjórða sætið við endurreiknun stiga. Castillo spilaði í 8 af 18 leikjum Ekvador í undankeppninni, þar á meðal báðum leikjunum gegn Síle.

Það verður áhugavert að fylgjast með hvaða niðurstöðu Alþjóða íþróttadómstóllinn kemst að þegar ljóst er að sönnunargögnin sem Síle og Perú leggja fram þóttu ekki nægja fyrir FIFA, sem telur Castillo vera með fullgildan ekvadorskan ríkisborgararétt samkvæmt sínum bókum.

Ekvador á að spila í A-riðli ásamt heimamönnum í Katar, Senegal og Hollandi.

Sjá einnig:
Ekvador heldur sætinu á HM en Síle fer með málið til CAS