fös 30.sep 2022
Potter ánægður með Aubameyang og Pulisic
Mynd: EPA

Graham Potter var ráðinn sem nýr knattspyrnustjóri Chelsea á dögunum eftir að byrjunin á nýju tímabili undir stjórn Thomas Tuchel þótti ekki nægilega góð að mati Todd Boehly nýs eiganda og stjórnendateymis hans.Tuchel var rekinn eftir 1-0 tap á útivelli gegn Dinamo Zagreb og hefur Potter aðeins stýrt liðinu í einum leik, 1-1 jafntefli gegb RB Salzburg.

Tuchel fékk mikið traust í sumar og háar upphæðir til að eyða í nýja leikmenn en Boehly vill sjá árangur strax og hefur því skipt um stjóra.

Potter segist vera ánægður með leikmannahópinn sem hann hefur í höndunum hjá Chelsea eftir að hafa verið hjá Brighton síðustu þrjú ár.

„Auba er góður gaur. Hann er einbeittur og hungraður í að spila, hungraður í að skora. Ég hlakka til að vinna með honum. Hann hefur ekkert til að sanna fyrir mér, hann er að haga sér eins og topp fagmaður og einstaklingur," sagði Potter um Pierre-Emerick Aubameyang sem var fenginn undir lok sumargluggans en hefur mistekist að skora í fyrstu tveimur leikjunum.

„Christian (Pulisic) er mjög jákvæður og klár einstaklingur. Við höfum átt mjög góðar samræður. Ég dæmi engan á því sem hefur gerst í fortíðinni, strákarnir eru allir á byrjunarreit hjá mér."

Pulisic vildi ólmur vera lánaður eða seldur frá Chelsea í sumar en Tuchel ákvað að halda honum.