lau 01.okt 2022
Spánverjar setja fyrirliðann og þá markahæstu út í kuldann
Jose Vilda tekur fjölda leikmanna úr spænska hópnum fyrir að kvarta undan honum.
Irene Paredes fyrirliði hefur misst sæti sitt í landsliðinu.
Mynd: EPA

Jorge Vilda landsliðsþjálfari kvennaliðs Spánverja horfir framhjá fjölda lykilmanna fyrir vináttulandsleiki gegn Svíum og Bandaríkjunum í október.Aðeins 9 af þeim 23 leikmönnum sem voru valdir í leikjum september mánaðar í undankeppni HM hljóta náð fyrir augum hans að þessu sinni en meðal þeirra sem eru settar út í kuldann eru fyrirliðinn Irene Paredes og Jenni Hermoso markahæsti leikmaður liðsins.

Spænska knattspyrnusambandið tilkynnti í síðustu viku að 15 leikmenn liðsins hafi hótað því að hætta í landsliðinu ef Vilda yrði ekki rekinn. Sambandið sagði að þær yrðu ekki valdar aftur fyrr en þær bæðust afsökunar.

Leikmennirnir sögðu þó rangt að þeir hafi krafist þess að hann yrði rekinn.

„Ég óska engum þess að lenda í því sem ég er að ganga í gegnum þessa dagana," sagði Vilda sem hefur unnið næstum 70% leikja sinna sem aðalþjálfari.

„Ég er mjög sár, þetta er ósanngjörn staða sem enginn á skilið. Mér finnst þetta fáránlegt hvernig sem á það er litið. Þetta rugl skaðar spænskan fótbolta og er okkur skammarlegt út um allan heim."

„Mín lausn á þessu er þessi listi leikmanna, ég sé enga aðra lausn eins og stendur. Ég verð að velja leikmenn sem vilja 100% vera hérna. Ég hef aldrei íhugað að segja af mér, það væri ósanngjarnt fyrir það sem við höfum skapað til þessa og ætlum að gera til framtíðar."

Paredes sem leikur með Barcelona og liðsfélagar hennar, Patri Guijarro, Mapi Leon, Sandra Panos og Aitana Bonmati eru allar settar út í kuldan auk Alexia Putellas sem er besta fótboltakona heims um þessar mundir. Hún er reyndar meidd en styður afstöðu liðsfélaga sinna.

Ona Batlle og Lucia Garcia sem leika með Man Utd, sem og Leila Ouahabi og Laia Aleixandri hjá Man City eru líka meðal þeirra sem eru ekki valdar.

Flestir leikmenn sem eru valdir koma frá Real Madrid eða níu en þær tóku ekki þátt í mótmælunum.