lau 01.okt 2022
[email protected]
Arteta: Gabriel Jesus búinn að hífa liðið upp á næsta stig
 |
 |
Mynd: EPA
|
Mikel Arteta var himinlifandi eftir 3-1 sigur Arsenal í nágrannaslagnum gegn Tottenham.
Sigurinn eykur bilið á milli Arsenal og Tottenham í deildinni þar sem lærisveinar Mikel Arteta eru í toppsætinu með 21 stig eftir 8 umferðir, fjórum stigum fyrir ofan Tottenham. „Strákarnir voru stórkostlegir, þeir tóku leikin í sínar hendur og verðskulduðu þennan sigur. Liðsheildin var frábær í dag og orkan sem kom frá stuðningsmönnum og leikmönnum og sameinaðist á vellinum var mögnuð," sagði Arteta. „Ég vona að þessi sigur færi þeim aukið sjálfstraust um að við getum unnið hluti með þessum leikstíl." Miðjumaðurinn Thomas Partey var í umræðunni í sumar vegna meintra kynferðisbrota gagnvart fyrrum kærustu sinni. Áhorfendur hafa baulað á Partey á upphafi nýs tímabils en hann skoraði glæsilegt mark í sigrinum í dag. „Við höfum verið að bíða eftir þessu marki. Ég er svo ánægður fyrir hans hönd, sérstaklega eftir allt sem hann hefur þurft að ganga í gegnum." Að lokum talaði Arteta um Gabriel Jesus sem hefur verið frábær frá komu sinni til Arsenal. „Við krefjumst þess að leikmenn sýni hugrekki bæði með og án boltans og frammistaðan í dag eykur sjálfstraustið okkar. Gabriel Jesus er búinn að breyta félaginu með innkomu sinni. Hann er með fullkomið hugarfar og setur frábært fordæmi á hverri einustu æfingu. Hann er búinn að hífa þetta lið upp á næsta stig. „Við erum á leið í rétta átt, ég er með frábæran leikmannahóp þar sem er frábær blanda af metnaði og hógværð. Ég hlakka til framtíðarinnar með þessum strákum."
|