lau 01.okt 2022
Anna Rakel mjög ánægð með tímabilið - „Kemur í ljós á næstu vikum"
Með bikarinn.
„Þetta er mjög góð tilfinning og markmið sem við erum búnar að stefna að lengi," sagði Anna Rakel Pétursdóttir, leikmaður Vals, eftir að liðið lyfti Bestu deildar skildinum í dag.

Valur er bæði Íslands- og bikarmeistari - frábært tímabil að baki á Hlíðarenda.

„Það er gaman að klára þetta og fínt að geta lyft þessu fyrir framan stuðningsmennina."

„Ég hef séð okkur eiga betri daga, en það er eðlilegt þar sem það er mikil þreyta í hópnum. Við náðum ekki að æfa eftir ferðalagið úti og þetta er kannski eðlilegt," sagði Anna Rakel um leikinn í dag en Valur spilaði erfiðan Evrópuleik í Tékklandi í miðri viku.

„Ég er mjög ánægð með tímabilið. Ég átti erfitt tímabil í fyrra þar sem ég meiddist illa og var frá allt tímabilið. Það er mjög gaman að vera komin til baka og ná tveimur titlum."

Anna Rakel, sem lék í vinstri bakverði á tímabilinu, er að verða samningslaus. Verður hún áfram í Val?

„Það verður að koma í ljós á næstu vikum. Umboðsmaðurinn minn sér um þetta. Þetta kemur í ljós á næstu vikum," sagði Anna Rakel sem er mjög ánægð með tímabilið.

Allt viðtalið er í spilaranum hér fyrir ofan.