lau 01.okt 2022
Margir Íslendingar á skotskónum - Willum tryggði stig gegn Ajax
Albert Guðmundsson skoraði í sigri Genoa
Willum skoraði jöfnunarmarkið gegn Ajax
Mynd: Go Ahead Eagles

Nökkvi gerði annað mark sitt fyrir Beerschot
Mynd: Beerschot

Jón Daði skoraði fyrir Bolton
Mynd: Getty Images

Viðar Ari gerði fyrsta mark sitt fyrir Honved
Mynd: Honved

Albert Guðmundsson og Jón Daði Böðvarsson voru báðir á skotskónum með sínum liðum í Evrópuboltanum í dag og þá voru fjölmargir Íslendingar í sigurliðum. Viðar Ari Jónsson skoraði fyrsta mark sitt fyrir ungverska félagið Honved. Willum Þór Willumsson tryggði þá Go Ahead Eagles stig í 1-1 jafntefli gegn meistaraliði Ajax í Hollandi.

Albert, sem var ekki í íslenska landsliðshópnum í september, hefur verið að gera góða hluti með Genoa í byrjun tímabilsins í B-deildinni, en hann var meðal annars valinn besti leikmaðurinn í september.

Hann hélt áfram góðu gengi sínu og skoraði annað mark Genoa í 2-0 sigri á SPAL. Albert og Massimo Coda hafa náð vel saman í liðinu en Coda lagði upp mark Alberts sem kom undir lok leiks.

Þetta var fyrsta mark hans í deildinni á tímabilinu. Hann er með 3 mörk og tvær stoðsendingar í sex leikjum í deild- og bikar á tímabilinu.

Jón Daði Böðvarsson gerði þá annað mark Bolton Wanderers í 2-0 sigri á Lincoln City í C-deildinni á Englandi. Jón Daði kom inná á 74. mínútu og skoraði tíu mínútum síðar. Bolton er í 6. sæti með 20 stig.

Kolbeinn Birgir Finnsson lék allan leikinn í vörn varaliðs Borussia Dortmund sem gerði 1-1 jantefli við 1860 München í þýsku C-deildinni.

Viðar Ari Jónsson byrjaði á bekknum hjá Honved í ungversku deildinni. Hann kom inná á 60. mínútu og skoraði þriðja mark liðsins í 4-3 tapi fyrir Debrecen. Þetta var fyrsta mark hans fyrir félagið.

Willum tryggði stig - Annað mark Nökkva

Willum Þór Willumsson kom til Go Ahead Eagles í Hollandi í sumar frá BATE Borisov. Hann hefur verið að stimpla sig inn ágætlega hjá Eagles, en valdi sér rétta tímapunktinn til að gera fyrsta markið.

Hann var í byrjunarliði Eagles gegn Ajax og jafnaði metin undir lok leiks. Willum skoraði úr þröngu færi eftir fyrirgjöf frá vinstri og fagnaði því ákaflega. Go Ahead Eagles er í 13. sæti með 7 stig.

Nökkvi Þeyr Þórisson gerði annað mark sitt fyrir Beerschot í B-deildinni í Belgíu. Hann skoraði annað mark liðsins í 2-0 sigri á Deinze. Markið kom á 50. mínútu en Nökkvi fór síðan af velli undir lok leiks. Beerschot er á toppnum með 13 stig. Kolbeinn Þórðarson kom þá inná á 74. mínútu í 2-1 sigri Lommel á RWDM 47 í sömu deild. Lommel er í 2. sæti með 12 stig.

Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði Leuven sem tapaði fyrir Royale Union SG, 3-0. Jón Dagur fór af velli eftir klukkutíma en Leuven er í 5. sæti með 17 stig.

Alfons Sampsted spilaði allan leikinn í 4-1 sigri Bodö/Glimt á Lilleström í norsku úrvalsdeildinni. Hólmbert Aron Friðjónsson kom inná sem varamaður á 89. mínútu í liði Lilleström. Bodö/Glimt er í 2. sæti með 45 stig en Lilleström í þriðja með 44 stig.

Brynjar Ingi Bjarnason sat allan tímann á bekknum er Vålerenga vann Strömgodset, 4-0. Vålerenga er í 5. sæti með 42 stig.

Elías Már Ómarsson kom þá inná á 79. mínútu er Nimes tapaði fyrir Paris FC, 1-0, í frönsku B-deildinni. Nimes er í 19. sæti með 8 stig.