mið 05.okt 2022
Meistaradeildin: Haaland skoraði tvö og síðan skipt af velli í hálfleik
Erling Braut Haaland skoraði tvö fyrir Man City
Pierre-Emerick Aubameyang fagnaði á viðeigandi hátt
Mynd: EPA

VInicius Junior skoraði seinna mark Real Madrid
Mynd: EPA

Dortmund vann öruggan sigur á Sevilla
Mynd: EPA

Lionel Messi og Neymar fagna marki Argentínumannsins
Mynd: EPA

Manchester City vann þriðja leik sinn í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á þessu tímabili er liðið kjöldró FCK, 5-0, á Etihad-leikvanginum í kvöld en Erling Braut Haaland var auðvitað á skotskónum og gerði tvö mörk fyrir heimamenn. Chelsea vann Milan örugglega, 3-0, á Stamford Bridge.

Það var Milan sem byrjaði betur gegn Chelsea. Liðið sótti vel en náði ekki að gera sér mat úr því.

Chelsea tók forystuna á 24. mínútu með skallamarki frá Wesley Fofana eftir hornspyrnu. Thiago Silva átti skalla fyrst sem Ciprian Tătăruşanu varði út á Fofana sem skilaði boltanum í netið.

Besta færi Milan kom undir lok fyrri hálfleiksins er Rafael Leao lék á vörn Chelsea og lagði hann fyrir Rade Krunic en Kepa var sterkur í markinu og sá við honum af stuttu færi.

Chelsea tvöfaldaði forystuna í byrjun síðari. Reece James átti laglega fyrirgjöf sem Fikayo Tomori náði ekki að teygja sig í og var eftirleikurinn auðveldur fyrir Pierre-Emerick Aubameyang.

James kláraði svo sjálfur dæmið. Raheem Sterling stakk boltanum inn fyrir á James sem var mættur í hlaupið og þrumaði honum svo í þaknetið. Lokatölur 3-0 á Stamford Bridge. Chelsea er í öðru sæti E-riðils með 4 stig en Milan er með jafnmörg stig í 3. sæti.

Óstöðvandi Haaland

Manchester City pakkaði saman FCK, 5-0, á Etihad. Leikurinn var einstefna frá fyrstu mínútu.

Fyrsta markið kom á 7. mínútu. Joao Cancelo fann Erling Braut Haaland sem stýrði boltanum í markið. Bernardo Silva átti skot í tréverkið áður en Haaland fékk dauðafæri til að stanga boltanum í netið en Kamil Grabara var vel á verði og handsamaði boltann.

Grabara hélt áfram að eiga fínasta leik í markinu en gat ekki komið í veg fyrir annað mark Haaland á 32. mínútu. Cancelo átti fast skot sem Grabara varði út á Haaland og skoraði hann örugglega.

Sergio Gomez gerði þriðja markið á 39. mínútu en boltinn hafði viðkomu af varnarmanni og í netið. Pep Guardiola, stjóri Man City, ákvað að hvíla Norðmanninn og skipta honum af velli í hálfleik fyrir Cole Palmer.

Riyad Mahrez skoraði af vítapunktinum á 55. mínútu eftir að brotið var á Aymeric Laporte í teignum áður en Julian Alvarez gerði fimmta og síðasta mark City í leiknum.

Ísak Bergmann Jóhannesson spilaði allan leikinn fyrir FCK en Hákon Arnar Haraldsson kom inná sem varamaður á 55. mínútu leiksins. Man City er á toppnum í G-riðli með fullt hús stiga en FCK í neðsta sæti með 1 stig.

Borussia Dortmund vann Sevilla, 4-1, í sama riðli. Jude Bellingham skoraði og lagði upp í leiknum. Þá lagði hinn ungi og efnilegi Youssoufa Moukoko upp tvö mörk í leiknum, en þetta var að öllum líkindum síðasti leikur Julen Lopetegui sem þjálfari Sevilla.

Dortmund er með 6 stig í öðru sæti en Sevilla í 3. sæti með aðeins 1 stig.

Benfica og Paris Saint-Germain gerðu 1-1 jafntefli í Portúgal. Lionel Messi skoraði stórkostlegt mark fyrir gestina á 22. mínútu áður en Danilo Pereira varð fyrir því óláni að skora í eigið net undir lok fyrri hálfleiks.

Juventus vann fyrsta leik sinn í H-riðli er liðið lagði Maccabi Haifa, 3-1. Angel Di María lagði upp öll þrjú mörk Juventus í leiknum og þá skoraði Adrien Rabiot tvö mörk fyrir heimamenn. Dusan Vlahovic komst einnig á blað.

Juventus er með 3 stig eftir þrjá leiki og situr í 3. sæti með 3 stig en PSG er á toppnum með 7 stig. Benfica er þá í öðru sætinu með 7 stig.

Evrópumeistarar Real Madrid höfðu betur gegn Shakhtar Donetsk á Santiago Bernabeu, 2-1. Rodrygo skoraði fyrsta markið áður en hann lagði upp annað markið fyrir Vinicius Junior. Oleksandr Zubkov minnkaði muninn fyrir Shakhtar en lengra komst úkraínska liðið ekki. Madrídingar með fullt hús stiga í F-riðli en Shakhtar í öðru sæti með 4 stig.

Úrslit og markaskorarar:

E-riðill:

Chelsea 3 - 0 Milan
1-0 Wesley Fofana ('24 )
2-0 Pierre Emerick Aubameyang ('56 )
3-0 Reece James ('62 )

F-riðill:

Real Madrid 2 - 1 Shakhtar D
1-0 Rodrygo ('13 )
2-0 Vinicius Junior ('28 )
2-1 Oleksandr Zubkov ('39 )

G-riðill:
Manchester City 5 - 0 FC Kobenhavn
1-0 Erling Haland ('7 )
2-0 Erling Haland ('32 )
2-1 Davit Khocholava ('39 , sjálfsmark)
3-1 Riyad Mahrez ('55 , víti)
4-1 Julian Alvarez ('76 )

Sevilla 1 - 4 Borussia D.
0-1 Raphael Guerreiro ('6 )
0-2 Jude Bellingham ('41 )
0-3 Karim Adeyemi ('43 )
1-3 Youssef En-Nesyri ('51 )
1-4 Julian Brandt ('75 )

H-riðill:

Juventus 3 - 1 Maccabi Haifa
1-0 Adrien Rabiot ('35 )
2-0 Dusan Vlahovic ('50 )
2-1 Dean David ('75 )
3-1 Adrien Rabiot ('83 )

Benfica 1 - 1 Paris Saint Germain
0-1 Lionel Andres Messi ('22 )
1-1 Danilo Pereira ('41 , sjálfsmark)