fim 06.okt 2022
Stigasöfnun FH varð verri eftir að Óli Jó var látinn fara
Sigurvin Ólafsson og Eiður Smári Guðjohnsen.
Fjölmiðlar hafa greint frá því að FH sé að funda um þjálfaramál sín en Eiður Smári Guðjohnsen er sagður hafa verið handtekinn ölvaður undir stýri á þriðjudaginn, daginn fyrir leik gegn ÍBV.

Fótbolti.net hefur ekki náð í Valdimar Svavarsson, formann FH, vegna málsins.

Sjá einnig:
Eiður Smári sagður hafa verið tekinn við ölvunarakstur eftir æfingu

FH hefur átt mjög erfitt sumar en Eiður Smári Guðjohnsen og Sigurvin Ólafsson tóku við þjálfun FH eftir að Ólafur Jóhannesson var látinn taka pokann sinn eftir níu umferðir. Eiður gerði samning út tímabilið 2024.

FH sat í 9. sæti Bestu deildarinnar með 8 stig eftir fyrstu níu leikina þegar Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson voru látnir fara.

Nú er liðið í 11. sæti og fallsæti með 19 stig eftir 23 leiki. Það eru fjórar umferðir eftir af deildinni.

Þjálfaraskiptin hafa því litlu skilað því stigasöfnunin er nánast eins. Í raun var hún aðeins betri undir stjórn Ólafs þar sem liðið fékk 0,89 stig að meðaltali í leik en hefur fengið 0,79 stig að meðaltali eftir að hann var látinn taka pokann sinn.