lau 19.nóv 2022
Bolton elskar endurkomur - Skoruðu tvö mörk undir lokin
Íslenski framherjinn Jón Daði Böðvarsson kom við sögu í mögnuðum 2-1 endurkomusigri Bolton Wanderers á Fleetwood Town í ensku C-deildinni í dag en bæði mörk Bolton komu undir lok leiks.

Jón Daði byrjaði á bekknum hjá Bolton en kom inná í stöðunni 1-0 fyrir Fleetwood á 63. mínútu.

Bolton jafnaði metin fimm mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma og þegar rúmar fjórar mínútur voru komnar í uppbót kom sigurmarkið frá Oladapo Afolayan.

Síðast þegar Bolton vann endurkomusigur þá skoraði Jón Daði einmitt á áttundu mínútu í uppbótartíma og ljóst að Bolton elskar smá dramatík.

Þessi sigur í kvöld fleytir Bolton upp í 5. sæti C-deildarinnar með 31 stig, tólf stigum frá toppliði Pymouth.