lau 19.nóv 2022
Aldrei séð eins langa röð á barinn
Barþjónarnir í Katar eru með gleðina að vopni.
Þó bjórsala verði ekki leyfileg almenningi á leikjum HM í Katar þá er bjórinn seldur á sérstökum stuðningsmannasvæðum í Doha. Í kvöld opnuðu einmitt þau svæði og ekki stóð á viðbrögðum þyrstra mótsgesta.

„HM partíið hófst loksins í kvöld, með lengstu röð á barinn sem ég hef orðið vitni að," segir Andy Lines, fréttamaður Mirror. Hundruðir fóru í röðina til að gæða sér á Budweiser sem seldur var á yfir 2.000 íslenskar krónur stykkið.

Það var stuðningsmaður Argentínu, Danilo Antonello, sem var fyrstur í röðinni og fékk sér því fyrsta bjór mótsins.

„Ég vildi vera hluti af sögunni. Ég er búinn að vera í Katar í tvo daga. Bjórinn bragðast frábærlega!" sagði Antonello við Mirror.

Til að komast inn á stuðningsmannasvæðin þarf að fara í gegnum stranga öryggisgæslu og líkir Lines því við öryggishlið á flugvöllum. Hann þurfti sjálfur að taka af sér gleraugun og setja þau í gegnum sérstaka öryggisleit.

HM hefst á morgun með opnunarleik Katar og Ekvador klukkan 16 að íslenskum tíma.