sun 20.nóv 2022
HM hefst í dag - Upphitun fyrir opnunarleikinn
Almoez Ali er markahæsti leikmaður í sögu Katar, 42 landsliðsmörk.
Miðjumaðurinn ungi Moises Caicedo er lykilmaður í Ekvador.
Mynd: Getty Images

„Þetta verður söguleg stund," segir Felix Sanchez, þjálfari Katar, um opnunarleik HM sem fram fer í dag klukkan 16 að íslenskum tíma. Gestgjafarnir í Katar taka á móti Ekvador.

Sjá einnig:
Þjálfari Katar í nærmynd - Var búist við að hann þyrfti að víkja fyrir stærra nafni

Fylgstu með: Fremst á vellinum treystir Katar á sóknardúettinn dínamíska Akram Afif og Almoez Ali. Sá fyrrnefndi er afskaplega lunkinn með knöttinn og skapar möguleika fyrir Ali sem er góður að klára færin. Þeir þurfa að finna leið framhjá Alexander Dominguez, markverði Ekvador, sem hefur farið í gegnum 459 mínútur fyrir landsliðið án þess að fá á sig mark.

Hvernig mun þessum liðum vegna?
Fótbolti.net spáir því að hvorugt liðið komist upp úr A-riðlinum; Ekvador endi í þriðja sæti og Katar í fjórða og neðsta. Holland og Senegal komist áfram.

Sjá einnig:
A-riðillinn: Van Gaal mætir með læti og bjartasta von Afríku

Þjálfari Ekvador: Gustavo Alfaro er 60 ára gamall Argentínumaður sem gerði Arsenal de Sarandí að argentínskum meisturum 2012 og stýrði síðar Boca Juniors. Hann tók við Ekvador 2020 þegar draumar liðsins um að komast á HM voru fjarlægir.

Líklegt byrjunarlið Katar: Al-Sheeb; Miguel, Al-Wari, Salman, Hassan, Ahmed; Hatem, Boudiaf; Al-Haydos; Ali, Afif

Líklegt byrjunarlið Ekvador: Dominguez; Preciado, Torres, Hincapie, Estupinan; Gruezo, Caicedo, Cifuentes; Plata, Valencia, Ibarra

Dómari: Daniele Orsato (Ítalía)

Leikvangur: Al Bayt leikvangurinn