sun 20.nóv 2022
Patrik staðfestir að hann sé á leið til Breiðabliks
Færeyski framherjinn Patrik Johannesen er að ganga í raðir Breiðabliks frá Keflavík en þetta staðfestir hann í viðtali við færeyska miðilinn Roysni.

Patrik, sem er 27 ára gamall, var sjóðandi heitur með Keflvíkingum í sumar og kom að fjórtán mörkum í Bestu deildinni.

Hann skoraði 12 mörk og lagði upp 2 er Keflavík vann Forsetabikarinn í fyrsta sinn með því að vinna neðri hluta Bestu deildarinnar.

Patrik kom til Keflavíkur fyrir tímabilið en staldrar stutt við því hann er að semja við Íslandsmeistaralið Breiðabliks. Dr. Football greindi frá því í gær að hann væri á leið til félagsins og hefur leikmaðurinn nú staðfest það í viðtali við Roysni.

Þar segir hann að búið sé að semja um kaup og kjör og þá greinir hann frá því að samningurinn er til næstu ára. Kaupverðið er 11 milljónir samkvæmt Dr. Football.

Patrik á aðeins eftir að fara í læknisskoðun áður en hann skrifar undir samninginn.