mán 21.nóv 2022
BBC sýndi ekki opnunarathöfnina í sjónvarpi
Mynd: Twitter

Breska ríkissjónvarpið og fleiri stöðvar sem eru með sýningarréttinn að HM í Katar töluðu gegn mótinu fyrir opnunarleikinn sem fór fram í gær.Breska sjónvarpið sleppti að sýna frá opnunarathöfninni, sem skartaði meðal annars Morgan Freeman og tónlistarstjörnunni Jungkook, og sýndi þess í stað fræðslumyndbönd um aðstæðurnar í kringum HM í Katar, mútuþægni FIFA og fordóma gegn samkynhneigð.

Opnunarathöfnin var aðeins aðgengileg á vef BBC eða á sjónvarpsstöð Al Jazeera á meðan Gary Lineker talaði um HM í Katar á sjónvarpsstöð BBC.

Alex Scott var í myndveri BBC ásamt Lineker og gagnrýndi nýleg ummæli Gianni Infantino, forseta FIFA, þar sem hann sagðist meðal annars skilja baráttu samkynhneigðra, svartra og farandverkamanna - vegna þess að hann hafi verið rauðhærður áður en hann missti hárið. Brandari sem hefur ekki fallið vel í kramið hjá mörgum.

Alan Shearer var einnig í myndverinu og tók undir orð samstarfsmanna sinna.

England mætir Íran í fyrstu umferð heimsmeistaramótsins í dag.