mán 21.nóv 2022
Infantino horfði á opnunarleikinn með Bin Salman
Mynd: Getty Images

Gianni Infantino, forseti FIFA, hefur legið undir mikilli gagnrýni í kringum HM í Katar.



FIFA samtökin hafa lengi verið talin afar óstraustverðug og virðist sú staða ekki ætla að breytast til muna.

Vinskapur Infantino og Vladimir Putin, forseta Rússlands, fór ekki framhjá neinum og í kringum HM hefur hann komið gestgjöfum mótsins, Katörum, ítrekað til varnar.

Infantino horfði á opnunarleik HM þar sem Katar tók á móti Ekvador og það vakti athygli að við hlið hans sat Mohammed bin Salman, krónprins og forsætisráðherra Sádí-Arabíu. Bin Salman er víða talinn bera ábyrgð á skipulagningunni á morði fréttamannsins Jamal Khashoggi sem lést í sendiráði Sádí-Arabíu í Ístanbúl, Tyrklandi, fyrir rúmlega fjórum árum síðan.

Þeim virtist koma afar vel saman uppi í stúkunni en enginn veit hvaða samræður mennirnir hafa átt bakvið tjöldin varðandi HM 2030. Sádí-Arabía vill hýsa heimsmeistaramótið eftir átta ár ásamt Egyptalandi og Grikklandi og því er Infantino mikilvægur einstaklingur fyrir áform Sádanna.