mið 23.nóv 2022
HM: Þriðji markalausi leikurinn af síðustu fjórum á mótinu
Sóknarleikur Króatíu var hugmyndasnauður.
Marokkó 0 - 0 Króatía

Markaþurrð virðist hrjá HM í Katar því þrír af síðustu fjórum leikjum mótsins hafa endað með markalausu jafntefli. Ekkert var skorað í leik Marokkó og Króatíu sem var að ljúka.

Það var fátt um fína drætti í leiknum og bæði lið voru með mjög varfærnislega nálgun, hræðslan við að tapa var sterkari en löngunin til að vinna.

Sóknarleikur króatíska liðsins, sem hafnaði í öðru sæti á HM 2018, var hugmyndasnauður og liðinu gekk lítið að finna glufur á vörn Marokkó.

Aðeins ein marktilraun var í fyrri hálfleik. Nikola Vlasic fékk dauðafæri í uppbótartíma fyrri hálfleiks, besta færi leiksins, en skot hans af stuttu færi var varið. Achraf Hakimi átti hörkuskot að marki Króatíu í seinni hálfleik en Dominik Livakovic varði vel.

Vonandi verður meira fjör í hinum þremur leikjum dagsins á mótinu.

HM: E-riðill
13:00 Þýskaland - Japan
16:00 Spánn - Kosta Ríka

Sjá einnig: E-riðillinn: Þýska stálið gegn endurfæddum Xavi og Iniesta

HM: F-riðill
10:00 Marokkó - Króatía 0-0
19:00 Belgía - Kanada

Sjá einnig:
F-riðillinn: Tveir með töframátt í fótunum