fim 24.nóv 2022
Hvernig endaði Guy Smit á æfingum með Jadon Sancho?
Guy Smit.
Jadon Sancho, leikmaður Manchester United.
Mynd: Getty Images

Erik ten Hag, stjóri Manchester United.
Mynd: Getty Images

Jadon Sancho var ekki valinn í enska landsliðshópinn fyrir heimsmeistaramótið í Katar.

Sancho hefur valdið vonbrigðum á þessari leiktíð hjá Manchester United og ekki spilað nægilega vel. Erik ten Hag, stjóri United, ráðlagði Sancho að fara til Hollands og æfa þar með þjálfara sem Ten Hag þekkir vel.

Sancho samþykkti það og er núna í Hollandi þar sem hann er við æfingar fyrir seinni hluta tímabilsins.Það vill svo skemmtilega til að Guy Smit, markvörður Vals hér á Íslandi, er að aðstoða Sancho við þessar æfingar.

„Ég fékk símtal á mánudaginn frá þjálfaranum sem hann er að vinna með. Hann er frá sama bæ og ég, og þekki hann frá Vitesse þar sem ég ólst upp," segir Smit við Fótbolta.net.

„Hann þurfti að fá markvörð fyrir skotæfingar. Þannig gerðist þetta. Ég var með honum við æfingar á mánudag, þriðjudag og svo aftur í dag. Ég var að klára. Við tökum frí um helgina og höldum svo áfram næsta mánudag. Ég var heppinn, þetta er skemmtilegt tækifæri fyrir mig."

Smit bætti við það að Sancho, sem er 22 ára, væri með góðan fót og með mikil gæði.

Smit er með samning við Val út næsta ár en er á sölulista hjá félaginu þessa stundina. Hollendingurinn spilaði tíu leiki með liðinu í Bestu deildinni á tímabilinu en varð fyrir meiðslum áður en Frederik Schram var sóttur frá Lyngby og hirti aðalmarkvarðarstöðuna hjá félaginu.