lau 26.nóv 2022
Casemiro: Óska Ronaldo alls hins besta nema gegn mér

Casemiro leikmaður brasilíska landsliðsins og Manchester United var spurður út í fyrrum liðsfélaga sinn, Portúgalann Cristiano Ronaldo og fréttamannafundi.Ronaldo er án félags eftir að United komst að samkomulagi við hann um að rifta samningum eftir viðtalið fræga við Piers Morgan.

„Ég hef ekki talað við hann en Cristiano Ronaldo er reynslumikill leikmaður og veit hvað er best fyrir sinn feril. Auðvitað erum við sárir yfir því að hann sé farinn enda einn besti leikmaður sögunnar. Ég óska honum alls hins besta nema þegar hann spilar gegn mér auðvitað," sagði Casemiro.

Brasilía og Portúgal spila bæði á mánudaginn. Brasilía mætir Sviss og Portúgal mætir Úrugvæ.