sun 04.des 2022
Gimenez gæti farið í langt bann - Gekk alltof langt í látunum

Það varð allt vitlaust eftir að Úrúgvæ féll úr leik á HM á dögunum þrátt fyrir sigur á Gana 2-0 í lokaleik riðilsins.Liðið þurfti að skora þriðja markið til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum og leikmenn Úrúgvæ voru allt annað en sáttir við dómgæsluna eftir leik.

Þeir vildu fá tvö víti, annars vegar þegar Darwin Nunez féll í teignum og hins vegar þegar Edinson Cavani féll í teignum.

Eftir leikinn hópuðust leikmenn Úrúgvæ að dómurunum og starfsmenn FIFA skárust í leikinn. Það fór myndband á flug af þessum átökum og þar sést Jose Maria Gimenez varnarmaður Úrúgvæ setja olnbogann í hnakkann á einum starfsmanni FIFA.

Þá náðist myndband af honum hrauna yfir dómarana og kalla þá meðal annars þjófa og allskonar ljóta hluti.

Miðillinn Mundo Deportivo greinir frá því að Gimenez gæti átt yfir höfði sér 15 leikja bann eða jafnvel lengra.