sun 04.des 2022
HM: Heimsmeistararnir komnir áfram - Lewandowski kvaddi með marki

Frakkland 3 - 0 Pólland
1-0 Olivier Giroud ('44 )
2-0 Kylian Mbappe ('74 )
3-0 Kylian Mbappe ('90 )Frakkland og Pólland áttust við í 16-liða úrslitum á HM í Katar en Frakkar stóðu uppi sem sigurvegarar.

Pólverjar komu flottir inn í leikinn en hann var opinn og skemmtilegur í fyrri hállfeik. Það var þó ekki fyrr en á 44. mínútu sem Olivier Giroud kom Frökkum yfir.

Hann var nýbúinn að klikka á dauðafæri en náði að bæta það upp og skoraði sitt 52. landsliðsmark en enginn annar í sögu franska landsliðsins hefur skorað jafn mikið.

Frakkar höfðu meiri völd á leiknum í síðari hálfleik. Giroud vonaðist eftir því að hann hafi tvöfaldað forystuna þegar hann kom boltanum í netið á 56. mínútu eftir stórkostleg tilþrif en dómari leiksisn var búinn að dæma brot.

Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka tvöfaldaði Kylian Mbappe forystuna. Hann fékk mikinn tíma inn á teig Pólverja og negldi boltanum í netið, óverjandi fyrir Wojciech Szczesny.

Mbappe gulltryggði síðan sigurinn þegar hann skoraði þriðja markið í uppbótartíma. Hann átti frábært skot í fjærhornið en þetta var fimmta mark hans á mótinu og hann er nú kominn með níu mörk á HM á ferlinum.

Robert Lewandowski kvaddi mótið með því að skora af vítapunktinum þegar komið var framyfir uppbótartímann. Dayot Upamecano fékk boltann í hendian og var því dæmt víti.

Lewandowski klikkaði í fyrstu tilraun en fékk annað tækifæri þar sem leikmenn Frakka voru komnir vel inn í teiginn og Hugo Lloris af línunni. Sá pólski skoraði af miklu öryggi í seinni tilrauninni.